Íslenski boltinn

Umfjöllun: Stjarnan niðurlægði Val á teppinu

Stefán Árni Pálsson á Stjörnuvelli skrifar
Mynd/HAG
Stjarnan valtaði yfir áhugalausa Valsmenn 5-0 á teppinu í Garðabæ, en Garðar Jóhannsson gerði tvö mörk fyrir Stjörnuna og hefur því gert 15 mörk í deildinni í sumar. Valsmenn mættu hreinlega ekki til leiks á meðan allir leikmenn heimamanna léku virkilega vel.

Það er óhætt að segja að þessi leikur hafi hafist með miklum látum en heimamenn komust yfir strax á annarri mínútu leiksins þegar Tryggvi Sveinn Bjarnason skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Halldóri Orra Björnssyni.

Valsmenn tóku miðju og Stjörnumenn unnu strax boltann aftur, brunuðu upp völlinn og unnu hornspyrnu. Jóhann Laxdal tók spyrnuna sem fór beint á kollinn á Tryggva Sveini og þaðan í netið, en markið var dæmt af þar sem boltinn virtist fara útaf vellinum í spyrnunni.

Fimm mínútum síðar náðu heimamenn að setja boltann í þriðja sinn í netið og þá var það löglegt. Atli Jóhannsson skallaði boltann í netið eftir frábæra sendingu frá Jóhanni Laxdal. 2-0 eftir tíu mínútna leik og Valsmenn ekki mættir til leiks.

Þegar hálftími var liðin af leiknum komust heimamenn í 3-0 þegar Garðar Jóhannsson skoraði sitt 14. mark fyrir Stjörnuna í sumar. Garðar fékk fína sendingu inn í teiginn, skallaði boltann í jörðina og þaðan skoppaði hann í höndina á Pól Jóhannus og vítaspyrna réttilega dæmd. Garðar Jóhannsson fór á punktinn og smellti honum í netið. Staðan var 3-0 í hálfleik fyrir heimamenn og Valsmenn bara ekki með á nótunum.

Kristján Guðmundsson, þjálfari Vals, gerði þrefalda skiptingu í hálfleik, en það virtist ekki skipta neinu máli. Seinni hálfleikurinn var mun rólegri en sá fyrri og ekkert markvert gerðist í raun þangað til að tæplega korter var eftir af leiknum þegar Garðar Jóhannsson skallaði boltann í netið eftir hornsspyrnu frá Atla Jóhannssyni. 15. mark Garðars í sumar og hann kórónaði frábært tímabil.

Einni mínútu fyrir leikslok náðu heimamenn að skora fimmta mark sitt í leiknum þegar Víðir Þorvarðarson stýrði knettinum snyrtilega í netið eftir magnaða sendingu frá Bjarka Pál Eysteinssyni. Alger niðurlæging Vals staðreynd.

Stjarnan-Valur 5-0

1-0 Tryggvi Sveinn Bjarnason (2.)

2-0 Atli Jóhannsson (9.)

3-0 Garðar Jóhannsson, víti (30.)

4-0 Garðar Jóhannsson (77.)

5-0 Víðir Þorvarðarson (89.)

Tölfræðin:

Skot (á mark): 13 – 7 (6-2)

Varin skot: Ingvar 2 – 1 Haraldur

Horn: 6 – 6

Aukaspyrnur fengnar: 6–10

Rangstöður: 0-1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×