Íslenski boltinn

Þórsarar fara í Evrópukeppnina tryggi KR sér titilinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mjölnismenn gætu haft ástæðu til þess að fagna í dag.
Mjölnismenn gætu haft ástæðu til þess að fagna í dag. Mynd / Eva Björk Ægisdóttir
Dagurinn gæti orðið sögulegur fyrir lið Þórs í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Vinni liðið sigur á Breiðablik á heimavelli tryggir liðið sæti sitt í deildinni þvert á spár sparkspekinga. Verði KR Íslandsmeistari fær Þór að auki sæti í forkeppni Evrópudeildar á næsta ári.

Ísland fær fjögur sæti í Evrópukeppni á næsta ári. Íslandsmeistararnir fara í forkeppni Meistaradeildar Evrópu en hin þrjú sætin gefa þátttökurétt í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Verði KR Íslandsmeistari fara Þórsarar í Evrópukeppni en liðið lenti í öðru sæti í bikarkeppni KSÍ. Liðin í 2. og 3. sæti í Pepsi-deildinni tryggja sér hin tvö sætin í forkeppni Evrópudeildar.

Verði KR ekki Íslandsmeistari fer liðið í forkeppni Evrópudeildar sem sigurvegari í bikarkeppninni. Íslandsmeistararnir (ÍBV eða FH) færu í forkeppni Meistaradeildar og liðin í 3. og 4. sæti í deildinni í forkeppni Evrópudeildar.

Heil umferð fer fram í 21. umferð Pepsi-deildar karla í dag. KR mætir Fylki á heimavelli í dag og Þórsarar taka á móti Breiðabliki. Allri leikir dagsins hefjast klukkan 16 og verða í beinni lýsingu á Vísi.

Leikur KR og Fylkis verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×