Íslenski boltinn

Bætir KR fimmtu stjörnunni á búninginn?

Stefán Árni Pálsson skrifar
Á þessari mynd sést í fjórar stjörnur fyrir ofan merki KR.
Á þessari mynd sést í fjórar stjörnur fyrir ofan merki KR. Mynd. / Daníel
KR-ingar geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag þegar þeir mæta Fylkismönnum í Vesturbænum.

KR-ingar eru í efsta sæti deildarinnar með 43 stig, ÍBV er í öðru sæti með 40 stig og FH-ingar í því þriðja með 38 stig.

FH tekur á móti ÍBV á Kaplakrikavelli í dag, en Eyjamenn verða að sigra þann leik til að eiga möguleik á Íslandsmeistaratitlinum. FH-ingar eiga enn möguleika á titlinum stóra.

Takist KR-ingum að sigra Fylki í dag verða þeir Íslandsmeistarar svo lengi sem Eyjamenn sigra ekki FH-inga.

25. Íslandsmeistaratitill KR-inga er því í sjónmáli fyrir þá svarthvítu, en fyrir hverja fimm Íslandsmeistaratitla er venjan að merkja búning liðsins með gullstjörnu fyrir ofan merki félagsins.

KR-ingar mæta Valsmönnum í lokaumferðinni en bæði þessi félög erum með fjórar stjörnur á búningnum. KR ingar hafa 24 sinnum orðið Íslandsmeistarar og Valsmenn 20 sinnum. Fimmta stjarnan gæti því verið komin á búning KR-inga fyrir leikinn gegn Val næstkomandi laugardag.

„Við erum ekki komnir það langt að hugsa út í svona mál,“ sagði Lúðvík Júlíus Jónsson, liðsstjóri KR, í samtali við Vísi.

„Við erum ekki orðnir Íslandsmeistarar og því ekki tímabært að undirbúa slíkt. Ef við aftur á móti klárum mótið í dag þá er ég enga stund að merkja búningana“.

„Stjórn KR og þjálfari liðsins taka ákvörðun um þessi mál, en ef liðið verður Íslandsmeistari á þessu tímabili verður fimmta stjarnan kominn á búning liðsins fyrir næsta tímabil, það er á hreinu“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×