Íslenski boltinn

Ólafur Kristjánsson: Rangar tilfinningar hjá okkur í sumar

Hjalti Þór Hreinsson á Þórsvelli skrifar
Ólafur Kristjánsson. Hann skartaði litríkum og glæsilegum trefli á Akureyri í dag sem vantar á myndina.
Ólafur Kristjánsson. Hann skartaði litríkum og glæsilegum trefli á Akureyri í dag sem vantar á myndina. Fréttablaðið
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Blika, var ánægður með leik sinna mana sem unnu Þór 2-1 fyrir norðan í dag. Blikar eru þar með öruggir með sæti sitt í deildinni.

"Ég er ánægður með leik alls liðsins. Það tæklaði erfiða viku vel núna eftir skellinn á móti Víkingum. Það sem skipti máli var að vinna núna en við gerum mótið ekkert upp núna þrátt fyrir að við séum ekki að fara að falla. Við skoðum stöðuna bara eftir síðasta leikinn."

"Það var gríðarlega mikilvægt að tryggja sætið samt sem áður. Við spiluðum ágætis leik, eftir erfiðar 10-15 mínútur í byrjun. Við mættum öflugu og kröftugu Þórsliði sem spilar vel á sínum styrkleika."

"Við þurftum að laga okkur að því og þegar það tókst  fannst mér við ná tökum á leiknum. Þetta voru góð mörk, við ógnuðum líka vel úr föstum leikatriðum sem við vorum búnir að fara vel yfir. Vinnuframlagið hjá liðinu var mjög gott."

Ólafur segir að pressan á liðinu fyrir leikinn eftir tapið gegn Víkingum eigi ekki að skipta neinu máli.

"Hvort sem pressan er mikil eða lítil verðurðu bara að útiloka hana. Það sem skiptir máli er að undirbúa sig vel og spila leikinn svo frjáls."

"Menn, og við allir, hafa verið sakbitnir í sumar og jafnvel skammast sín fyrir frammistöðu liðsins. Það eru tilfinningar sem gefa enga orku. Við þurftum að leita að öðrum tilfinningum til að gefa okkur meiri styrk."

"Það er ekki hægt að hengja sumarið hjá okkur á einhvern einn snaga, hugarfar, hver fór eða hvað annað. Þetta eru margir samverkandi þættir en hugarfar skiptir alltaf miklu máli í íþróttum," sagði Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×