Íslenski boltinn

Ögmundur: Við erum með frábært lið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Valli
Ögmundur Kristinsson, markvörður Fram, átti stórleik í Grindavík í dag þó svo að hann hafi fengið þungt höfuðhögg í upphafi síðari hálfleiks. Ögmundur hélt þó áfram og Fram vann 2-1 sigur.

„Þetta var nú meiri barningurinn en maður fórnar sér í þetta,“ sagði Ögmundur við Vísi eftir leikinn. „Við fengum líka þrjú stig og er það fyrir öllu.“

„Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur en við megum ekki gleyma því að það er einn leikur eftir. Við ætlum að klára hann.“

Ögmundur segir að hann hefði viljað hafa stærri forystu eftir fyrri hálfleikinn. „Við vissum hvernig þetta yrði þegar þeir myndu sækja undan vindinum. Þetta var barningurinn eins og þetta er alltaf í Grindavík en það kom ekkert annað til greina en að klára þetta.“

„Þetta er í fyrsta sinn í sumar sem við erum ekki í fallsæti en það mun engu máli skipta ef við töpum síðasta leiknum. Við verðum bara að klára hann.“

Hann segir ýmislegt hafa komið til sem varð til þess að Framarar fóru að safna stigum eftir skelfilegt gengi lengst framan af sumrinu. „Það var hugarfarsbreyting hjá okkur og svo hafa Bretarnir komið mjög öflugir inn. Við skoðuðum okkar mál vel, tókum fund og þá kom þetta allt saman. Við erum með frábært lið og sjá það allir núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×