Íslenski boltinn

Þorvaldur: Aldrei rólegir leikir í Grindavík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram.
Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram. Mynd/Daníel
Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram, vildi bíða með öll fagnaðarlæti þó svo að lið hans sé komið úr fallsæti í Pepsi-deild karla í fyrsta sinn í mjög langan tíma.

Fram lyfti sér fyrir ofan Grindavík með 2-1 sigri í leik liðanna suður með sjó. Eins og búast mátti við var um mikinn baráttu leik að ræða.

„Í þau skipti sem maður hefur lagt för sína til Grindavíkur til að spila knattspyrnuleiki hefur maður ekki fengið rólega leiki,“ sagði Þorvaldur sem var vitanlega hæstánægður með sigurinn.

„En þetta var sérstakur leikur. Bæði lið voru varkár í fyrri hálfleik og vildi hvorugt gera mistök. Það er kannski eðlilegt að menn voru smeykir,“ bætti hann við.

„Við vorum samt ágætir í fyrri hálfleiknum því það var erfitt að spila með vindinum eins og við gerðum þá. Við áttum því von á því að getað rúllað boltanum betur í seinni hálfleik.“

„Svo þróaðist leikurinn eins og maður bjóst við. Þeir byrjuðu að dæla boltum inn í teiginn okkar og uppskáru jöfnunarmark en sem betur fer náðum við að skora annað mark.“

Hann vill þó ekki fagna sigri of snemma þó svo að Fram sé komið úr fallsæti í fyrsta sinn í langan tíma. „Við skulum sjá til hvernig tilfinningin verður eftir lokaumferðina. Við verðum að vera á tánum og halda einbeitingu fyrir lokaleikinn.“

„En það má orða það þannig að við erum í betri stöðu núna en þegar við vöknuðum í morgun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×