Íslenski boltinn

Dofri Snorrason: Gleymdi fagninu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Þetta er ólýsanleg tilfinning. Það er bara þannig," sagði Dofri Snorrason hetja KR-inga. Dofri skoraði sigurmark KR-inga í 3-2 sigrinum á Fylki og tryggði þeim ÍSlandsmeistaratitilinn.

„Ég var reyndar búinn að tala um að taka eitthvað fagn en það bara gleymdist. Það kemur bara næst. Það verður eitthvað næst."

Dofri sagði það skipta miklu máli að fagna titilinum á heimavelli en virtist svo jafnvel snúast hugur.

„Já miklu máli. Kannski hefði Hlíðarendi verið sætari. Á 100 ára afmælinu. Þetta er ótrúlegt. Eitthvað sem mig hefur dreymt um lengi."

Leikmenn KR fóru með Íslandsmeistaratitilinn til stuðningsmannanna í stúkunni í leikslok.

„Já, þeir skiptu öllu máli. Þegar við erum niðri þá rífa þeir okkur upp og öfugt. Þeir eru búnir að vera frábæri í sumar og verið meiri jákvæðni í kringum klúbbinn en áður."

Dofri hefur komið sterkur inn í lið KR seinni hluta mótsins. Hann lagði meðal annars upp jöfnunarmarkið í Eyjum og var maður leiksins í dag.

„Á undirbúningstímabilinu reiknaði ég með því (að spila stórt hlutverk). Svo datt ég aðeins niður. Þegar sumarið byrjaði var Maggi Lú kominn með byrjunarsætið og það var bara þannig. Við vorum saman inni í þessu til að byrja en svo datt ég aðeins út úr þessu. Náði svo að vinna mig ágætlega inn í þetta í sumar."

KR vann tvöfalt hér heima og náði góðum árangri í Evrópukeppninni. Draumasumar hjá Vesturbæingum.

„Þetta er rugl. Maður hefur alist upp við það sjá allar þessar hetjur taka titilinn. Svo upplifir maður þetta sjálfur. Þetta er ólýsanlegt."

Dofri hefur unnið báða titlana sem hægt er að vinna hér á landi. Ætti knattspyrnumaðurinn ungi ekki að leggja skóna á hilluna á toppnum?

„Nei, ég er rétt að byrja," sagði Dofri sá hressasti með titilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×