Íslenski boltinn

Albert Brynjar: Sást á spjöldunum að við vorum í baráttunni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Albert Brynjar Ingason var ánægður með frammistöðu Fylkismanna sem gerðu KR-ingum erfitt fyrir í Vesturbænum í dag.

„Já, við höfðum engu að tapa. Við vildum gefa þeim erfiðan leik og gerðum það. Þetta var flottur leikur hjá okkur.“

Fylkismenn söfnuðu gulum spjöldum í leiknum og fauk Valur Fannar Gíslason af velli með tvö gul spjöld seint í leiknum.

„Við ætluðum ekki að gefa neitt eftir. Það er rétt hjá þér. Það sást á spjöldunum. Við vorum 100 prósent í baráttunni allan tímann.“

Fylkismenn hafa misst leikmenn í atvinnumennsku og meiðsli í sumar án þess að fengnir hafi verið nýir menn. Aðeins sex leikmenn voru á varamannabekknum í dag en leyfilegt er að hafa sjö.

„Það er bara þannig. Við erum með ungt lið sökum meiðsla og menn hafa verið að fara út. Þeir sem hafa komið inn, þessir ungu strákar, hafa staðið sig mjög vel.“

„Auðvitað er maður svekktur að sjá svona góða leikmenn fara. Sérstaklega svona skapandi leikmenn. En við erum á Íslandi og það má búast við því að svona góðir leikmenn fari. Við fáum unga stráka inn í staðinn og gerum þá meira tilbúna.“

Albert Brynjar er á því að KR-ingar séu verðugir Íslandsmeistarar.

„Já, alveg klárlega. Taflan lýgur ekki. Ég man þegar við spiluðum við þá í fyrri umferðinni. Þeir voru yfirburðarlið í deildinni þá. Svo hefur álagið farið aðeins á þá og hafa ekki spilað alveg jafn vel. Samt sem áður sýnt karakter og  klárað þessa leiki sína. Þeir standa uppi sem verðugir sigurvegarar. Það er ekki hægt að taka neitt af þeim.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×