Íslenski boltinn

Tryggvi: Strákarnir á sjúkrabílnum eru farnir að þekkja mig

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Þessa mynd tók bróðir Tryggva er þeir komu á sjúkrahúsið í gær. Á henni sést vel hversu ljótan skurð Tryggvi fékk.
Þessa mynd tók bróðir Tryggva er þeir komu á sjúkrahúsið í gær. Á henni sést vel hversu ljótan skurð Tryggvi fékk.
Það verður seint sagt að lánið hafi leikið við Tryggva Guðmundsson í sumar. Hann var í gær fluttur burt af vellinum í sjúkrabíl en það er í annað sinn í sumar sem Tryggvi fer slíka ferð.

"Þetta var átta sentimetra skurður sem ég fékk á ennið og átján spor saumuð í kallinn. Ætli ég fái ekki í kjölfarið Harry Potter ör á ennið," sagði Tryggvi við Vísi í morgun.

"Það sem gerist er að Hákon Atli [Hallfreðsson] fer með takkana í hausinn á mér. Það stefndi í skallaeinvígi hjá mér og Tommy [Nielsen] en Hákon snýr sér við. Hann getur stundum verið klunnalegur og hann hreinlega skrapar mig með tökkunum. Það var greinilega einn takki sem opnar á mér hausinn," sagði Tryggvi en hann segist samt ekki hafa meitt sig mikið.

"Þetta var ekki svo mikið högg þannig séð. Ég ætlaði að standa upp og halda áfram en ég sá það á viðbrögðum manna í kringum mig að þetta var greinilega mjög ljótt."

Úr varð síðan að Tryggvi var fluttur burt úr Krikanum i sjúkrabíl.

"Þetta er önnur ferðin með sjúkrabíl og strákarnir á sjúkrabílnum eru farnir að þekkja mig. Þetta er þriðja ferðin mín á spítala í sumar. Fyrst handarbrot, svo kinnbeinsbrot og að lokum þessi skurður," sagði Tryggvi sem ætlar engu að síður að spila lokaleik ÍBV um næstu helgi enda stefnir hann á að bæta markametið þá.

"Ég spila. Það er alveg klárt. Ég veit ekki hvernig við gerum þetta. Hjalti læknir finnur eitthvað út úr þessu. Við þurfum að tryggja okkur Evrópusæti og verðum að vinna um næstu helgi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×