Innlent

Fötluðum dreng neitað um gjafsókn

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Arnaldur Breki Kjartansson fæddist þremur mánuðum fyrir tímann.
Arnaldur Breki Kjartansson fæddist þremur mánuðum fyrir tímann.
Fötluðum 12 ára dreng hefur verið neitað um gjafsókn fyrir Hæstarétti, en hann krefst skaða- og miskabóta vegna mistaka heilbrigðisstarfsmanns sem áttu sér stað á meðgöngu móður hans.

Arnaldur Breki Kjartansson fæddist þann 3.mars árið 1999, þremur mánuðum fyrir tímann, en hann var tekinn með keisaraskurði vegna meðgöngueitrunar móður hans. Drengurinn varði mörgum mánuðum á sjúkrahúsi vegna veikinda og við níu mánaða aldur kom í ljós að hann væri með meðfædda heilalömun.

"Heilinn gefur röng skilaboð til vöðvanna og hann er alltaf krepptur. Hann á erfitt með að samhæfa hendur og labbar mjög hægt og skakkt, en hann hefur enga tilfinningu fyrir jafnvægi," segir Guðrún Eir Einarsdóttir, móðir Arnalds Breka.

Foreldrar hans stefndu íslenska ríkinu fyrir hönd sonarins og kröfðust bóta upp á tæpar 44 milljónir, þar sem þau telja að örorku hans megi rekja til þess að heilbrigðisstarfsmaður lagði Guðrúnu ekki strax inn á sjúkrahús eftir að eitrunin var greind. Í maí sýknaði Héraðsdómur Reykjavíkur ríkið af bótakröfunni, en mat dómsins var að ekki væri hægt að rekja fötlunina beint til vanrækslu starfsmannsins.

„Við vorum í miklu sjokki og trúðum ekki að við myndum tapa þessu máli. Ef ég hefði getað fengið betri umönnun á meðgöngu minni þá er ég viss um að Breki væri orðið svona fatlaður eins og hann er í dag," segir Guðrún og bætir við að enginn hafi getað sannað að mistök starfsmannsins hafi ekki orsakað fötlunina.

Málinu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar, en Innanríkisráðuneytið hefur hafnað beiðni Arnalds Breka um gjafsókn. Arnar Þór Stefánsson, lögfræðingur fjölskyldunnar, lýsir furðu sinni á þeirri ákvörðun. „Hann fær að fara fyrir Héraðsdóm og þá er auðvitað eðlilegt að hann fái að klára síðasta áfangann og fái úrlausn Hæstaréttar í málinu."

Hann segir kostnaðinn við að reka mál fyrir Hæstarétti mikinn og því gæti svo farið að fjölskyldan þurfi frá málinu að hverfa. Innanríkisráðuneytið hefur tekið ákvörðun sína til endurskoðunar og mun hún skila af sér niðurstöðum í byrjun október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×