Erlent

Gjaldþrot sólarkísilverksmiðju skekur Bandaríkjastjórn

Barack Obama heimsótti fyrirtækið fyrir nokkrum misserum.
Barack Obama heimsótti fyrirtækið fyrir nokkrum misserum. Mynd/AP
Gjaldþrot sólarkísilverksmiðju í Kaliforníu skekur ríkisstjórn Baracks Obama, sem er sökuð um að hafa sólundað 60 milljörðum króna í fyrirtæki sem átti að verða táknmynd endurreisnar bandarísks efnahagslífs.

Gjaldþrot sólarrafhlöðuframleiðandans Solyndra var eitt stærsta mál bandaríska fjölmiðla í gær og jafnvel rætt um að í uppsiglingu væri hneykslismál í ætt við Watergate sem gæti skaðað mjög Barack Obama Bandaríkjaforseta. Ástæðan er sú að Bandaríkjastjórn lánaði fyrirtækinu yfir sextíu milljarða króna, og saka repúblikanar ríkisstjórnina um að hafa þrýst láninu í gegn á síðasta ári þrátt fyrir viðvaranir opinberrar lánanefndar.

Gjaldþrot Solyndra þykir sérlega neyðarlegt fyrir Barack Obama sem sjálfur hafði mætt í fyrirtækið og hampað því sem táknrænu um endurreisn bandarísks efnahagslífs þar sem saman færi græn sólarorka og arðbær hátækniiðnaður. Raunveruleikinn reyndist hins vegar annar. Verð á sólarrafhlöðum féll um 42 prósent og efnahagskreppa í Evrópu dró mjög úr eftirspurn.

Repúblikanar segja stjórn Obama hafa kastað 535 milljónum bandaríkjadollara af fjármunum skattborgara í ævintýrið og það sé nú glatað fé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×