Íslenski boltinn

Ólafur: Náðum ekki að skapa þá þyngd sem þarf

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Ólafur Kristjánsson þjálfari Breiðabliks.
Ólafur Kristjánsson þjálfari Breiðabliks. Mynd/Daníel
Ólafur Kristjánsson þjálfari Breiðabliks sagði kraft í sóknarleik síns liðs vanta til að ná að taka þrjú stig í Keflavík í kvöld en sætti sig þó við stigið. „Þrjú hefðu yljað en við tökum þessu stigi,“ sagði Ólafur eftir leikinn sem fór 1-1.

„Mér fannst við byrja betur, vera sterkari fyrstu 20 mínúturnar. Keflavík nær yfirhöndinni síðustu mínútur fyrri hálfleiks. Síðan fannst mér við hafa betri tök á leiknum í seinni hálfleik án þess þó að skapa þá þyngd og færi sem þarf til að vinna leik.“

Keflavík lét markvörð Breiðabliks hafa mun meira fyrir hlutunum í leiknum en Blikar kollega hans í marki Keflavíkur. „Við eigum sláraskot og Kristinn kemst í gegn o. s. frv. Við töluðum um það í hálfeik að skjóta meira en það gekk ekki alveg eftir.“

Jafntefli þýðir að staðan gagnvart Fram í níunda sæti í óbreytt eftir leiki kvöldsins, nema það að Fram á einum leik færra til ná liðunum fyrir ofan sig nú þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir og sex stigum munar á liðunum.

„Það er nánast óbreytt staða miðað við fyrir leikinn hjá okkur gagnvart Fram eða því sæti sem þeir eru í. Við ætlum að taka þessa síðustu þrjá leiki sem eftir eru á fullum krafti og sýna að það sé áhugi og vilji fyrir því að gera almennilega hluti og það er okkar markmið úr þessu,“ sagði Ólafur sem vonar sínir menn séu ekki farnir að bíða eftir því að mótið klárist.

„Ég ætla rétt að vona ekki, þá er hættan einfaldlega sú að þetta verði ennþá meiri vonbrigði og eitthvað sem er erfitt að sætta sig við,“ sagði Ólafur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×