Innlent

Grunur um fíkniefnaneyslu 11 ára barns

Boði Logason skrifar
Atvikið átti sér stað í Breiðholti.
Atvikið átti sér stað í Breiðholti. Mynd/ HAG.
Grunur leikur á að ellefu ára gamall piltur, sem fannst í annarlegu ástandi í vikunni, hafi verið undir áhrifum fíkniefna. Barnaverndarnefnd hefur verið tilkynnt um málið.

Pilturinn fannst á grasbala í Rangárseli í Breiðholti á miðvikudagskvöld. Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir í samtali við fréttastofu að lögreglu hafi borist tilkynning um hálf átta leytið þess efnis að piltur væri í annarlegu ástandi á staðnum.

Þegar lögreglumenn komu á staðinn var pilturinn einn og yfirgefinn. Hann var óviðræðuhæfur og var haft samband við móður piltsins sem fór á slysadeild með honum.

Ómar Smári segir að lögreglumennirnir sem komu á vettvang hafi grunað að pilturinn væri undir áhrifum kannabisefna en það sé ekki vitað fyrir víst. Hann gæti alveg eins hafa verið veikur en það eigi eftir að koma betur í ljós. „Það verður skoðað, það gæti alveg eins hafa verið veikindi,“ segir Ómar.

Ekki er vitað hvar pilturinn á að hafa fengið umrætt kannabisefni en ekki leikur grunur á að hann hafi fengið það frá heimili sínu.

Lögreglan rannsakar nú málið í samstarfi við Barnaverndarnefnd sem hefur verið tilkynnt um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×