Innlent

Með ólíkindum að enginn ráðherra standi vörð um hagsmuni neytenda

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ.
Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir það lýsa ótrúlegu skeytingarleysi gagnvart hagsmunum neytenda að engir ráðherrar hafi beitt sér fyrir því að heimila innflutning á kjöti á sama tíma og skortur er í verslunum.

Forsvarsmenn verslanafyrirtækja eins og Haga og Krónunnar segja nauta-, lamba- og kjúklingakjöt vanta í verslanir. Í þessu samhengi sé viðvarandi skortur á lambakjöti.

Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) segja sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hunsa lagaskyldu sína með því að gefa ekki innflutningsleyfi á lambakjöt.

„Því máli höfum við þegar skotið til umboðsmanns Alþingis því það er okkar eina ráð gagnvart svona makalausri stjórnsýslu," segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ.

Andrés segir með ólíkindum að engir stjórnmálamenn hafi brugðist við þessu. „Það lýsir ótrúlegu skeytingarleysi gagnvart svona ríkum hagsmunum, hagsmunum verslunarinnar en þó fyrst og síðast hagsmunum neytenda, að pólitíkin og stjórnkerfið virði þessa ríku hagsmuni að vettugi með þögninni einni."

Í áliti frá síðasta mánuði var það niðurstaða umboðsmanns Alþingis að lagaheimildir ráðherra til að ákveða tolla á innflutning á landbúnaðarvörur væru í andstöðu við stjórnarskrána, en hún heimildar ekki að sköttum sé breytt nema með lögum og þá bannar hún sömuleiðis að stjórnvaldi sé falið skattlagningarvaldið. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ekkert brugðist við þessu áliti á þeim þremur vikum sem liðnar eru frá því það birtist.

„Maður hefði nú haldið að þegar umboðsmaður Alþingis sendir ekki bara sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heldur einnig fjármálaráðherra og forseta Alþingis, svona alvarlegar ábendingar um bresti í stjórnkerfinu, þá hefðu komið viðbrögð, á þessum þremur vikum, en þau eru engin," segir Andrés.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnarráðherra, varð ekki við ósk fréttastofu um viðtal vegna málsins í dag þegar eftir því var leitað. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×