Enski boltinn

Mancini vill fá fleiri leikmenn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roberto Mancini, stjóri City.
Roberto Mancini, stjóri City. Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini segir að hann sé ekki með nógu marga leikmenn til að geta unnið ensku úrvalsdeildina á næsta keppnistímabili. Hann vill fá 2-3 leikmenn til viðbótar.

Mancini telur að núverandi meistari, Manchester United, sé „fimm skrefum“ á undan City sem hefur þó eytt háum upphæðum í leikmenn í sumar.

Félagið fékk Sergio Agüero frá Atletico Madrid fyrir 38 milljónir punda og varnarmennina Gael Clichy og Stefan Savic þar að auki.

„United er á topnum eftir að hafa unnið úrvalsdeildina síðast. Þeir hafa bætt sterkum leikmönnum við sinn hóp og standa framar okkur í dag. Það munar þó ekki miklu,“ sagði Mancini við enska fjölmiðla.

United og City mætast í árlegum leik um Samfélagsskjöldinn í dag.

„Við viljum bæta árangur okkar frá síðasta tímabili og við munum reyna að vinna ensku úrvalsdeildina. En til þess þurfum við að fá 2-3 leikmenn til viðbótar. United er með 29 leikmenn í sínu aðalliði en við með 20 leikmenn.“

Mancini vill fá Samir Nasri frá Arsenal og er ekki talið ólíklegt að Arsenal sé nú reiðubúið að selja leikmanninn.

Fram kemur í enska blaðinu Guardian að City sé með 24 leikmenn í sínum aðalliðshópi og eru þá þeir Emmanuel Adebayor, Wayne Bridge, Craig Bellamy, Roque Santa Cruz og Nedum Onuoha ekki taldir með. Þeir fá ekki að æfa með aðalliðinu þar sem þeir eru ekki í framtíðaráætlunum Mancini.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×