Enski boltinn

Búið að fresta tveimur leikjum vegna óeirðanna í London

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Óeirðirnar í London eru farnar að hafa áhrif á enska fótboltann því það er búið að fresta tveimur leikjum í enska deildarbikarnum sem áttu að fara fram í London annað kvöld. Lundúnarlögreglan óskaði eftir því að leikirnir færu ekki fram.

Fyrst var leik West Ham og Aldershot á Upton Park frestað en síðan hefur einnig verið tekin ákvörðun um það að fresta leik Charlton og Reading. Það mun síðan verða tekin ákvörðun um það í fyrramálið hvort leikur Crystal Palace og Crawley fari fram en hann er einnig í enska deildarbikarnum eins og hinir tveir.

Óeirðirnar hófust í Tottenham-hverfinu í gær en þær hafa síðan dreifst um suðurhluta London í dag.

Enska úrvalsdeildin hefst síðan um næstu helgi en áður en að þeim leikjum kemur mun enska landsliðið vera í sviðsljósinu í Lundúnum á miðvikudagskvöldið.

Enska sambandið ætlar samkvæmt Guardian að leita ráða hjá Lundúnarlögreglunni vegna vináttulandsleiksins við Hollendinga sem á að fara fram á Wembley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×