Innlent

Viðskiptaráðherra óttast ekki dómstólaleiðina

SB skrifar
Árni Páll Árnason, viðskiptaráðherra.
Árni Páll Árnason, viðskiptaráðherra.
Árni Páll Árnason, efnahags og viðskiptaráðherra, segist ekki óttast dómstólaleiðina en Eftirlitsstofnun EFTA hefur gefið Íslandi þrjá mánuði til að greiða lágmarksinnistæðutryggingu Icesave kröfuhafa, ella fari málið fyrir dóm. Árni Páll segir líklegt að greiðslum úr þrotabúinu verði lokið þegar dómur í málinu falli. Rök Íslands í málinu séu sterk.

Íslensk stjórnvöld sendu ESA formlegt svar við athugasemdum stofnunarinnar vegna Icesave í maí þar sem Ísland hafnaði því að brot gegn innistæðutryggingatilskipun Evrópusambandsins hefði átt sér stað og þess var krafist að mál eftirlitsstofnunarinnar yrði látið niður falla.  Í bréfi íslenskra stjórnvalda sagði að horfur væru á því að þrotabú Landsbankans myndi standa undir nær öllum kröfum og útgreiðslur úr búinu myndu hefjast á næstu misserum.

Síðar í maí kom í ljós að horfur væru á að þrotabú Landsbankans myndi eiga fyrir um 99% af öllum Icesave kröfunum en greiðslur geta ekki hafist fyrr en Hæstiréttur hefur skorið úr um álitaefni tengd neyðarlögunum svokölluðu. Dóms Hæstaréttar er að vænta í haust.

Nú hefur ESA svarað bréfi íslenskra stjórnvalda. Þar kemur fram að íslenskum stjórnvöldum beri að greiða nemi 20.887 þúsund evrur að hámarki fyrir hvern innstæðureikning. Eða yfir 600 milljarða. Ísland ekki innan þriggja mánaða fari stofnunin með málið fyrir dómstóla. Árni Páll Árnason, viðskiptaráðherra, segir að ef málið fari fyrir dómstóla þá muni Ísland taka til varna.

Hvað þýðir þetta. Að þeir taki ekki til greina að greiðslur úr þrotabúinu gætu náð hátt upp í Icesave skuldina?

„Þeir virðast taka það til greina, en þeir leggja til grundvallar að okkur hafi borið að tryggja breskum og hollenskum innstæðueigendum aðgang að innstæðum sínum strax í hruninu. Við höfum fært fram ítarleg rök fyrir að það hafi okkur ekki verið mögulegt. Um málsvörn okkar hefur verið mikil samstaða milli allra flokka á Alþingi og ég kvíði því ekki að við setjum fram okkar rök. Ég tel að við höfum sterk rök í málinu"

Hefur þetta áhrif á stöðu okkar innan EFTA?

„Flest Evrópusambandsríki gera sér grein fyrir því að það sé ágreiningur um túlkanir á hinum ýmsu tilskipunum innan hins evrópska efnahagssvæði. Það gerist oft og reglulega. Við leggjum á það áherslu að þetta sé slíkt mál, það sé einfaldlega ágreiningur um túlkun á þessari tilskipun og við viljum leiða hann til lykta með ákveðnum hætti og ef eftirlitsstofnunin vill fara með þetta fyrir dóm er það þeirra val. Og þar munum við skýra okkar afstöðu."

Svona dómsmál gæti tekið langan tíma og það hefur verið talað um að greiðslur úr þrotabúinu gætu hafist í sumar. Gætu kröfuhafarnir verið búnir að fá sitt þegar málið ratar fyrir dóm. Er þetta dómsmál meira formsatriði til að skera úr um lagaflækjur?

„Það er alveg rétt hjá þér að margt bendir til að útgreiðslur geti hafist fljótt og það er nokkuð ljóst að útgreiðslur verði hafnar úr búinu og langt komnar þegar dómur fellur. Það mun auðvitað skýra það betur en flest annað að hér er ekki um að tefla atriði sem mun hafa áhrif á Ísland á alþjóðavettvangi heldur einfaldlega ágreiningur um afmarkaðan þátt þessa máls í heild sem er hvort okkur hafi borið að veita aðgang að innstæðunum strax í upphafi við hrunið eða hvort endurgreiðsla úr búinu sé nægjanleg. Og þetta verður þá leitt til lykta fyrir dómstólum og í dag er ekki hægt að fullyrða um hver hin efnislega niðurstaða verður en dómstólar munu þá eiga um það síðasta orðið."

Nú eru Íslendingar með þykkan Icesave skráp. Er tilefni fyrir fólk að hræðast þessar fréttir?

„Icesave málið varð til vegna útrásar Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Við höfum sem þjóð og stjórnvöld reynt að takast á við málið og leysa það. Eins og staðan er í dag eru ekki aðrir kostir í stöðunni en að sækja það með skýrum hætti gagnvart eftirlitsstofnuninni, ef hún kýs að fara með það fyrir dóm tökum við til varnar þar. Við höfum sterk og skýr rök og svo verðum við að lifa með niðurstöðu dóms.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×