Erlent

Játaði morð eftir 65 ár

Óli Tynes skrifar
Hún hringdi dyrabjöllunni og....
Hún hringdi dyrabjöllunni og....
Níutíu og sex ára gömul hollensk kona hefur játað á sig morð sem hún framdi árið 1946. Það var fyrsta heila friðarárið eftir síðari heimsstyrjöldina og uppgjör við föðurlandssvikara og stríðsglæpamenn í fullum gangi. Atie Ridder-Visser var félagi í hollensku andspyrnuhreyfingunni. Felix Gulje var viðskiptajöfur sem meðal annars rak byggingafyrirtæki. Hann hafði tekið að sér verkefni fyrir Þjóðverja og var grunaður um samvinnu við þá.

Það var á kaldri vetrarnóttunóttu hinn 1. mars sem Ridder-Visser hringdi dyrabjöllunni heima hjá Felix Gulje. Þegar eiginkona hans kom til dyra sagði Ridder-Visser að hún væri með bréf til hans. Þegar Gulje kom sjálfur til dyra skaut hún hann til bana. Það sem hún vissi ekki þá í ruglingslegu ástandinu eftir stríð var að Gulje hafði þegar verið sýknaður af ákæru um landráð og honum var ætlað pílitískt hlutverk í uppbyggingu Hollands eftir stíðið.

Reyndist gyðingum vel

Og ekki var nóg með að hann hefði ekki verið í samvinnu við Þjóðverja heldur hafði hann á laun liðsinnt ótalmörgum Gyðingum. Hann hafði bæði falið þá á sínu eigin heimili og greitt öðrum fyrir að veita þeim skjól. Lögreglan fann aldrei morðingjann.

Ridder-Visser hefur nú loks játað á sig morðið og átt fund með barnabörnum Guljes til þess að útskýra hvað gerðist og hversvegna hún gerði það sem hún gerði. Ridder-Visser er nú bæði gömul og heilsuveil. Yfirvöld í Hollandi fordæma að hún skyldi taka lögin í eigin hendur, en hyggjast ekki lögsækja hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×