Fótbolti

Sigurliðið á EM 2012 getur fengið 23.5 milljónir evra í sinn hlut

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Torres og Iniesta fagna sigurmarki þess fyrrnefnda í úrslitaleik EM 2008
Torres og Iniesta fagna sigurmarki þess fyrrnefnda í úrslitaleik EM 2008 Mynd/Nordic Photos/Getty
Verðlaunafé fyrir Evrópukeppni landsliða í Póllandi og Úkraínu var ákveðið á fundi framkvæmdanefndar UEFA í vikunni. Sigurliðið keppninnar getur fengið 23.5 milljónir evra í sinn hlut vinni það alla leiki sína í keppninni.

Heildarverðlaunafé í keppninni verður 196 milljónir evra en var 184 milljónir evra árið 2008.

Öll landsliðin sem komast í lokakeppnina fá í sinn hlut átta milljónir evra. Sigur í riðlakeppni gefur eina milljón evra til viðbótar og jafntefli hálfa milljón evra.

Sigur í 8-liða úrslitum gefur tvær milljónir evra, sigur í undanúrslitum þrjár og sigurliðið í úrslitaleiknum fær 7.5 milljónir evra. Tapliðið í úrslitaleiknum fær 4.5 milljónir evra í sinn hlut.

Þá hefur UEFA ákveðið að veita liðunum sem lenda í þriðja sæti riðlakeppninnar hálfa milljón evra.

„Upphæðin á að virka sem hvatning til hinna liðanna verði tvö lið búin að tryggja sig áfram eftir tvo leiki í riðlakeppninni," sagði talsmaður UEFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×