Innlent

Jóhanna vill flýtimeðferð á vantrauststillögu

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
Jóhanna Sigurðardóttir ætlar að óska eftir því við forseta Alþingis að vantrauststillaga Bjarna Benediktssonar fái flýtimeðferð í þinginu. Óvíst er hvenær tillagan verður tekin fyrir en heimildir fréttastofu herma að það gæti orðið á fimmtudaginn kemur.

Jóhanna sagði að með vantrauststillögunni væri Bjarni að kalla eftir pólitískri upplausn í landinu á mjög erfiðum tímum. Erfiðar kjaraviðræður væru í gangi sem miklu skipti fyrir uppbyggingu atvinnulífsins og efnahagsþróun næstu missera.

Því telur Jóhanna óskynsamlegt að efna nú til kosninga. Hún sagðist þó fagna tillögunni að vissu leyti. „Ég segi nú bara, loksins loksins, manar stjórnarandstaðan sig upp í það að leggja fram vantraust á ríkisstjórnina. þeir hafa ekki svo oft boðað vantraust án þess að láta verða af því.“

„Mér finnst að þetta sé mjög gott hjá stjórnarandstöðunni því hún er þar með að leggja sitt af mörkum til þess að þjappa stjórnarliðum saman. Ég fer fram á það við hæstvirtan forseta að þessi tillaga formanns Sjálfstæðisflokksins verði tekin á dagskrá eins fljótt og auðið er, vegna þess að það er mikilvægt að fá niðurstöðu í þetta mál.“

Jóhanna segir að þegar Bjarni kalli á vantraust þá líti hann ekki í eigin barm. „Ég spyr, nýtur formaður Sjálfstæðisflokksins trausts? Í fyrsta lagi var ekki það að sjá í nýafstöðnum kosningum að það væri mikið af Sjálfstæðismönnum sem fylgdu honum í þeirri afstöðu sem hann tók.“

Jóhanna segir að spurninugunni um traust flokksmanna í garð Bjarna hafi þegar verið svarað. „Því er svarað í málgögnum sjálfstæðismanna, þar vantar ekki að andstæðingar formanns flokksins tali fullum rómi og lýsi vantrausti á formanninn.“

Að lokum ítrekaði Jóhanna ánægju sína með tillöguna og hvernig hún mun að hennar mati þjappa stjórnarliðum saman: „Kærar þakkir, Bjarni Benediktsson.“


Tengdar fréttir

Bjarni leggur fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokki ætlar að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Þetta kom fram í máli hans þegar hann svaraði munnlegri skýrslu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um niðurstöður Icesave málsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×