Innlent

Spá mörgþúsund milljarða uppbyggingu í Norður-Noregi

Mikil bjartsýni ríkir nú í Norður-Noregi eftir að gríðarstór olíulind fannst þar undan ströndum í byrjun mánaðarins. Spáð er að á næstu árum verði fjárfest þar fyrir yfir fjögurþúsund milljarða króna.

Statoil tilkynnti í byrjun mánaðarins um mesta olíufund í sögu Noregs í meira en áratug, um tvöhundruð kílómetra norðvestur af Hammerfest. Svartsýni var þá farið gæta enda var Statoil búið að leita lengi í Barentshafi með litlum árangri þegar menn duttu loks í lukkupottinn.

Jannik Lindbæk, upplýsingafulltrúi Statoil, segir að boraðar hafi verið í allt áttatíu leitarholur.

"Og fyrir stuttu fundum við mikið magn. Þetta er stærsti fundur síðustu tíu ár," segir talsmaðurinn og bætir við: "Við höfum lagt mikla vinnu í að þróa vinnslu í Barentshafi svo það er ljóst að þetta verður á næstu árum mjög mikilvægt svæði fyrir Statoil."

Fyrir samfélögin í Norður-Noregi verða áhrifin gríðarleg. Þar eru framundan fjárfestingar sem hlaupa á þúsundum milljarða króna. Talsmaður olíusamtaka Norður-Noregs, Arvid Jensen, spáir því að í hönd fari uppbygging fyrir yfir fjögur þúsund milljarða króna.

Oddvitinn í Tromsö, Arild Hausberg, segir að olíufundurinn hafi þegar haft svo uppörvandi áhrif í Norður-Noregi að þar sjáist munur á lund manna þessa dagana. Oddvitinn í Hammerfest, Alf Jakobsen, segist ekki aðeins finna fyrir áhuga fyrirtækja í olíugeiranum heldur einnig á mörgum öðrum sviðum. Hann hefur þegar séð hvaða áhrif uppbygging gasvinnslustöðvarþar hafði.

"Bara í Hammerfest höfum við fengið um það bil fimm hundruð nýja íbúa vegna þessa og þar af eru flestir á aldrinum 20-39 ára," segir oddvitinn. "Það þýðir að íbúarnir verða yngri, - unga fólkið flytur aftur heim og þess bíða spennandi störf. "

Flugvöllurinn í Tromsö á eftir að fá aukið vægi og orðin spurning hvort hann verði ekki freistandi áfangastaður fyrir íslensk flugfélög.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×