Innlent

Drukkinn ökumaður dæmdur fyrir að verða tveimur stúlkum að bana

Tvítugur maður var dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir að aka ölvaður, langt yfir leyfilegum hámarkshraða, og verða tveimur stúlkum sem voru farþegar í bílnum, að bana.

Atvikið átti sér stað í Reykjanesbæ í apríl á síðasta ári.

Stúlkurnar voru ekki í bílbelti þegar maðurinn, sem þá var nítján ára gamall, velti bifreiðinni þannig hún kastaðist rúmlega 60 metra. Alls voru þrír farþegar í bílnum. Sá þriðji lá þungt haldinn á spítala eftir slysið, en lifði af.

Stúlkurnar sem létust hétu Lena Margrét Hinriksdóttir, fædd 8 febrúar 1992 og Unnur Lilja Stefánsdóttir, fædd 25. ágúst 1991.

Í framburði mannsins kemur fram að hann muni lítið eftir ökuferðinni. Hann sagðist til dæmis ekki muna eftir að hafa ekið fram úr annarri bifreið eftir að hann tók við akstrinum skömmu áður en slysið varð.

Viðurkenndi maðurinn að hafa fundið til áfengisáhrifa og þreytu við aksturinn, en í dóminum kemur fram að hann hóf áfengisneyslu kvöldið áður en slysið átti sér stað. Hann var því búinn að vaka í um 18 klukkustundir þegar hann velti bifreiðinni.

Maðurinn neitaði að hafa ekið langt yfir leyfilegum hámarkshraða, sem voru 70 kílómetrar á klukkustund, en sérfræðingar komust að þeirri niðurstöðu að líklegast væri að ökutækið hefði verið á 114 km hraða á klukkustund.

Níu mánuðir af tólf mánaða dómnum eru skilorðsbundnir til tveggja ára, haldi maðurinn almennt skilorð. Maðurinn var að auki sviptur ökuréttindum í þrjú ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×