Innlent

Íslensk ull til hamfarasvæðanna í Japan

Þrjár japanskar konur sem búið hafa hér á landi áratugum saman hafa tekið sig saman og skipulagt átak sem miðar að því að senda íslenskan ullarfatnað til hamfarasvæðanna í Japan. Pósturinn hefufr slegist í lið með þeim og í aprílmánuði kostar ekkert að senda hlífðarfatnað til Japans. Konurnar, þær Miyako Þórðarson, Yoko Arai og Yayoi Shimomura, vildu gera eitthvað til að hjálpa löndum sínum í Japan og höfðu því samband við Póstinn um að aðstoða þær. Í samstarfi við Póstinn vilja þær hvetja landsmenn til að leggja hamfarasvæðum Japans lið á þessum erfiðu tímum en landsmenn takast nú á við afleiðingar risajarðskjálftans og flóðbylgjunnar.

„Þær voru búnar að hugsa lengi hvernig þær gætu lagt sitt af mörkum og komust að því að erfitt er að senda hjálpargögn á þau svæði sem verst urðu úti. Þær fengu upplýsingar um það að mikil þörf er á hlífðarfatnaði og byrjuðu þær því að hekla og prjóna úr íslensku ullinni. Á síðasta ári fóru þær á prjónanámskeið fyrir byrjendur þar sem þær kynntust gæðum íslensku ullarinnar sem þær segja að sé bæði létt og hlý," segir í tilkynningu.

Þá hafa konurnar fengið Hrafnistu í Reykjavík og Hafnarfirði í lið með sér þar sem allir keppast við að prjóna jafnt starfsfólk, vistfólk og aðstandendur þeirra. „Einnig hafa bæst í hópinn kvenfélagskonur í Grensáskirkju ásamt starfsfólki Hagstofu Íslands er þar vinnur Yayoi."

„Viðræður hafa einnig átt sér stað við skólastjóra í Garðabæ, bæði í grunnskólum og framhaldsskólanum um að nemendur leggi málefninu lið með því að prjóna fyrir fórnarlömb hamfaranna í Japan."

Konurnar óska nú eftir hlífðarfatnaði úr íslenskri ull eins og peysum, vettlingum, sokkum, húfum og treflum. Ef fólk hefur áhuga á að taka þátt er um að gera að senda þeim Miyako, Yoko og Yayoi póst á netfangið hjalpumjapan@postur.is og þær munu koma sendingunum til skila á rétta staði þar sem þörf er á.

„Þær hvetja einnig fólk að setja smá skilaboð inn í t.d. vettlinga, það skipti svo miklu máli á svona stundu að fá jákvæð skilaboð. Þær segja nú þegar vera snortnar yfir því hvað margir Íslendingar hafi áhuga á að hjálpa þeim sem illa urðu úti í hamförunum."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×