Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mun mæla fyrir lækkun opinberrar álagningar á bensín og olíu í dag, samkvæmt dagskrá Alþingis. Samkvæmt tillögu Tryggva er gert ráð fyrir að eldsneytisskattur lækki um tæpar 20 krónur. Tryggvi segir í greinargerð með frumvarpinu að hlutur eldsneytis sé um 7%-8% í neyslu heimilanna. Mikil verðhækkun eldsneytis skerði því möguleikana á neyslu annarra vörutegunda.
„Fólk nær að bregðast að einhverju leyti við með því að draga úr eldsneytisnotkun, sérstaklega til lengri tíma litið. Þannig hefur eldsneytissala dregist saman um 7% frá sama tíma í fyrra og umferð hefur minnkað um rúm 6% frá áramótum samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar,“ segir Tryggvi í greinargerðinni.
Tryggvi Þór leggur til lækkun bensíngjalda í dag
Jón Hákon Halldórsson skrifar
