Fótbolti

Glæsilegur sigur á Svíum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ísland vann í dag frábæran sigur á sterku liði Svíþjóðar, 2-1, í fyrsta leik liðsins á Algarve Cup-mótinu í Portúgal.

Svíar komust yfir strax á annarri mínútu en Margrét Lára Viðarsdóttir jafnaði metin fyrir Ísland áður en flautað var til hálfleiks.

Kartrín Jónsdóttir fyrirliði tryggði svo stelpunum sigurinn með marki á 54. mínútu leiksins og þar við sat.

Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland vinnur sigur á Svíþjóð í tíu leikjum. Þar til í dag hafði Ísland tapað átta sinnum fyrir Svíum og gert eitt jafntefli. Í fyrra mættust þessi lið á sama móti og vann þá Svíþjóð 5-1 sigur.

Svíþjóð er með eitt allra sterkasta landslið heims og situr nú í fjórða sæti styrkleikalista FIFA. Sigurinn er ekki síst glæsilegur í því ljósi en Ísland er í sautjánda sæti listans.

Svíþjóð er þar að auki ein af aðeins fjórum Evrópuþjóðum sem komust upp úr undankeppninni fyrir HM 2011 sem fer fram í Þýskalandi á næsta ári.

Í hinum leik riðilsins vann Danmörk 1-0 sigur á Kína. Ísland mætir næst Kínverjum á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×