Erlent

Hver fær friðarverðlaunin?

Forseti Líberíu, Ellen  Johnson Sirleaf, er talin sigurstrangleg.
Forseti Líberíu, Ellen Johnson Sirleaf, er talin sigurstrangleg.
Tilkynnt verður í dag klukkan níu í Osló hver hlýtur Friðarverðlaun Nóbels þetta árið. Eins og venjulega reyna menn að giska á hver hljóti hnossið og eru margir á því að kona verði fyrir valinu í þetta skiptið. Þorbjörn Jagland formaður nefndarinnar sagði við norska ríkissjónvarpið í gær að hann telji að vinningshafanum í ár verði vel tekið um allan heim.

Fréttamaður norska ríkissjónvarpsins spáir því að verðlaunin fái forseti Líberíu, Ellen  Johnson Sirleaf. Þessi sami fréttamaður spáði fyrir um útnefningu Baracks Obama árið 2009 sem kom flestum á óvart og hann giskaði einnig á ákvörðun nefndarinnar í fyrra þegar kínverski andófsmaðurinn Liu Xiaobo var valinn.

Aðrir hafa sagt að verðlaunin hljóti að fara til þeirra sem skipulögðu mótmælin á Frelsistorginu í Kairó og urðu þess valdandi að Hosni Mubarak Egyptalandsforseti hrökklaðist frá völdum. Þau mótmæli urðu síðan öðrum mótmælendum í Mið-Austurlöndum fyrirmynd og enn sér ekki fyrir endan á þeirri þróun.

Lesendur Guardian sem þátt tóku í könnun um hver ætti verðlaunin skilið voru flestir á því að Bradley Manning ætti að fá þau, en hann situr nú í fangelsi bandaríkjahers fyrir að leka skjölum til vefsíðunnar Wikileaks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×