Innlent

Var varaður við afleiðingum synjunar

Ólafur Ragnar Grímsson fékk gögn sem vöruðu við alvarlegum efnahagslegum afleiðingum þess að synja lögunum staðfestingar. Hann synjaði engu síður.fréttablaðið/stefán
Ólafur Ragnar Grímsson fékk gögn sem vöruðu við alvarlegum efnahagslegum afleiðingum þess að synja lögunum staðfestingar. Hann synjaði engu síður.fréttablaðið/stefán

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var varaður við því að synjun laga um ríkisábyrgð vegna Icesave, gæti stórlaskað stöðu Íslands í alþjóðasamstarfi og aukið hættu á greiðslufalli. Þetta kom fram í bréfi frá sérfræðingum í Stjórnarráði Íslands, sem forsetinn fékk í hendur á mánudag. Þar er varað við alvarlegum efnahagslegum afleiðingum.

Í bréfinu segir að verði lögin felld í þjóðaratkvæðagreiðslu gæti skapast alvarlegt ástand. Bretar og Hollendingar myndu neyta utanríkispólitísks aflsmunar á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og EES. Það mundi torvelda endurfjármögnun íslenska ríkisins, sveitarfélaga og orkufyrirtækja. Þá er minnt á að núverandi gjaldeyrishöft séu í andstöðu við grunnreglur EES og háð samþykki annarra samningsaðila.

Sérfræðingarnir telja að ef lögin verði felld séu allar líkur á að fyrri samningar falli einnig úr gildi. Þetta kemur einnig fram í minnispunktum Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra, sem hann fór yfir með forsetanum. Þar segir að ríkislögmaður geti ekki vottað hvernig málið standi verði lögin felld.

Í bréfi sérfræðinganna er einnig varað við því að verði lögin felld fái Bretar og Hollendingar meginþorra allra úthlutana úr þrotabúi Landsbankans og fyrstu sjö árin alveg það sama og þeir hefðu fengið samkvæmt samningnum. Þá er ítrekað að samstarfsáætlun AGS og Íslands yrði óvirk og henni jafnvel rift. Matsfyrirtækin myndu einnig lækka landið niður í ruslflokk, nokkuð sem þegar hefur gerst.

Í minnisblaði Steingríms er einnig sagt að trúverðugleiki íslenskra stjórnvalda sé í húfi, núverandi ríkisstjórn, að minnsta kosti fjármálaráðherra, yrði í afar vandræðalegri stöðu gagnvart viðsemjendum. Þá hrósar Steingrímur þjóðinni fyrir yfirvegun, en undir kraumi mikið og ástandið í samfélaginu sé brothætt og aukið atvinnuleysi á útmánuðum gæti gert ástandið verra.

Friðrik Már Baldursson, prófessor í viðskiptafræði við HR, ræddi við forsetann í síma í aðdraganda ákvörðunar hans. Í samtali við Fréttablaðið á þriðjudag, sagði Friðrik óttast að synjun forsetans hleypti nauðsynlegri endurfjármögnun í uppnám. Greiðslukúfur væri fram undan fyrir landið, árin 2011 og 2012, og fjármögnun yrði því að vera skýr. „Þetta er mikil áhætta sem við erum að taka.“

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×