Innlent

Vatni borgarbúa ekki ógnað

Breyting í vindáttum gæti farið að leggja ösku yfir á höfuðborgarsvæðið. Orkuveitan segir það ekki mundu spilla drykkjarvatni.
Fréttablaðið/Pjetur
Breyting í vindáttum gæti farið að leggja ösku yfir á höfuðborgarsvæðið. Orkuveitan segir það ekki mundu spilla drykkjarvatni. Fréttablaðið/Pjetur
Sigurbjörn Búi, forstöðumaður fyrir kalda vatnið hjá Orkuveitu Reykjavíkur, segir ástæðulaust að óttast mengun á drykkjarvatni vegna öskufalls á starfssvæði fyrirtækisins.

Að sögn Sigurbjörns er allt kalt vatn Orkuveitunnar fengið úr borholum neðanjarðar nema á Akranesi þar sem vatn er fengið úr vatnsbóli í Akrafjalli. Þar sé reyndar heldur ekki von á að mengað vatn berist til neytenda því það fari í gegnum sandsíur.

Sigurbjörn útskýrir að helsta hættan af gosöskunni stafi af flúor sem geti náð niður í jarðlögin þaðan sem vatnið sé tekið. Í öskunni mun einmitt vera talsverður flúor. „En reyndar er flúor í drykkjarvatni hér eitt hundrað sinnum minni en mælt er með vegna tannheilsu,“ bendir hann á.

Guðni Guðbergsson, fiskifræðingur hjá Veiðimálastofnun, segir hættuna á öskufalli fyrir fisk í ám og vötnum vera fyrir hendi. Hættan sé hins vegar óljós enda séu mjög margir þættir sem spili inn í hugsanleg áhrif af öskunni. Hann biður fólk að láta vita ef það sér fisk sem það telur hafa drepist af völdum öskufalls. Þekkt sé að flúor sé hættulegt skepnum.

„Mér er sagt að þegar askan lá norður í land í Heklugosinu 1970 hafi fundist fljótandi dauðir fiskar í hliðarám Blöndu á Auðkúluheiði. Það voru líkur til þess að það væri vegna eiturefna úr öskunni,“ segir Guðni Guðbergsson. - gar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×