Fótbolti

Óreyndir fá tækifæri hjá Capello

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands.
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands. Nordic Photos / AFP
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, ætlar að nota vináttulandsleikinn gegn Mexíkó á morgun til að gefa óreyndari leikmönnum leikmannahópsins tækifæri til að spila.

Æfingahópur landsliðsins, alls 30 leikmenn, hefur verið í æfingabúðum í Austurríki undanfarna daga en leikurinn á morgun fer fram á Wembley-leikvanginum.

Capello þarf að tilkynna fyrir 1. júní næstkomandi hvaða 23 leikmenn fara á HM í Suður-Afríku.

Hann mun á morgun gefa þeim leikmönnum sem tóku þátt í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar frí í leiknum gegn Mexíkó. Það eru þeir John Terry, Frank Lampard, Ashley Cole og Joe Cole frá Chelsea og David James, markvörður Portsmouth.

„Ég mun prófa mig áfram í leiknum gegn Mexíkó. Það er mikilvægt að sjá hvaða leikmenn munu standa sig á vellinum," sagði Capello við enska fjölmiðla.

„Ég hef í raun gert það upp við mig hvaða 23 leikmenn fara á HM. En við þurfum að bíða því það er aldrei að vita hvort einhver meiðist."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×