Innlent

Eldgosin koma við pyngjuna

Rjúfa þurfti þjóðveginn til að hlífa brúnni yfir Markarfljót vegna hlaups í ánni þegar gaus í Eyjafjallajökli.
fréttablaðið/vilhelm
Rjúfa þurfti þjóðveginn til að hlífa brúnni yfir Markarfljót vegna hlaups í ánni þegar gaus í Eyjafjallajökli. fréttablaðið/vilhelm

Heildarkostnaður þeirra sem komu að málum vegna eldgosanna í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi árið 2010 er metinn á rúmlega 800 milljónir króna. Stærstu einstöku liðirnir þar eru 190 milljónir til Bjargráðasjóðs, 117 milljónir til Vegagerðarinnar og 116 milljónir til Landgræðslu ríkisins. Af öðrum stórum liðum má nefna Veðurstofu Íslands með 78 milljónir og Ríkislögreglustjóra með 54 milljónir.

Tillögur til að mæta þessum kostnaði koma fram í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2010. Tillögurnar að fjárveitingunum eru byggðar á niðurstöðu samráðshóps ráðuneytisstjóra fimm ráðuneyta sem settur var á laggirnar til að leggja mat á kostnað þeirra aðila sem komu að aðstoð meðan á eldsumbrotunum stóð og þeirra sem komið hafa að uppbyggingu í kjölfar hamfaranna.

Í skýringum við frumvarpið kemur fram að tuttugu aðilar bera umtalsverðan kostnað vegna hamfaranna. Eins og gefur að skilja ber Bjargráðasjóður hitann og þungann af þessum kostnaði ásamt Vegagerðinni og Landgræðslunni. Hlutverk Bjargráðasjóðs er að veita einstaklingum, félögum og sveitarfélögum fjárhagsaðstoð til að bæta bein tiltekin tjón af völdum náttúruhamfara. Kemur þar inn í myndina tjón á fasteignum, landi, tækjum og bústofni eða afurðum.

Vegagerðin þurfti að leggja í verulegan kostnað þegar rjúfa þurfti þjóðveg 1 vegna flóða niður Markarfljót. Kostnaðurinn við að koma hringveginum í samt horf, ásamt öðru smálegu, er metinn á 117 milljónir. Þá fær Landgræðslan 70 milljónir króna vegna uppbyggingar varnargarða vegna flóðanna.

Til viðbótar við þær 800 milljónir sem mælt er með að renni til ýmissa stofnana og viðbragðsaðila má nefna 350 milljónir vegna markaðsátaks í íslenskri ferðaþjónustu til að vega á móti neikvæðum áhrifum eldgosanna.

Frá því að Landeyjahöfn var tekin í notkun í júlí á þessu ári hefur verið erfiðleikum bundið að halda henni opinni vegna sandburðar. Ein ástæða þessa er að mikið magn gosefna frá gosinu í Eyjafjallajökli berst inn í höfnina og 180 milljónir þarf til að mæta kostnaði vegna þessa.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×