Innlent

Valtýr segir kröfu um afsögn sína ósannfærandi

Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari segir mikið áhyggjuefni hvernig komið er fyrir umræðu um kynferðisbrot. „Ég tel það háalvarlegt mál að því sé haldið fram á opinberum vettvangi að embættismenn vinni markvisst gegn framgangi kynferðisbrota og að brotaþolum kynferðisbrota „sé ekki trúað" í réttarkerfinu sem sé ein „svikamylla". Þá eru það ekki sannfærandi viðbrögð að krefjast afsagnar þeirra sem gera tilraun til þess að ræða málefnalega um málaflokkinn."

Þetta kemur fram í svari Valtýs við bréfi dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins vegna umræðu um kynferðismál.

Kröfðust afsagnar Valtýs

Ögmundur Jónasson kallaði Valtý á fund sinn eftir háværa umræða um vinnulag í kynferðisbrotamálum í kjölfar þess að Valtýr tjáði sig um kynferðisbrotamál í viðtali við DV. Orð Valtýs í viðtalinu féllu í grýttan jarðveg og bárust ráðuneytinu fjölda athugasemda vegna ummæla hans. Sumir kröfðust þess hreinlega að Valtýr myndi segja af sér.

Valtýr er ósáttur við þá gagnrýni sem þá kom fram í hans garð frá ýmsum þeim sem koma að starfi með fórnarlömbum kynferðisofbeldis.

Ómakleg ummæli

„Nýlega var Björgin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu látinn skipta um starfsvettvang innan lögreglunnar eftir að hafa tjáð skoðanir sínar í viðtali um þessi mál og var þá sérstaklega vísað til tiltekinna ummæla hans. Í blaðaviðtali af þessu tilefni vísaði Guðrún Jónsdóttir til ummæla Björgvins og sagði; „ Starfsfólk Stígamóta hefur haft áhyggjur af þeim litla fjölda dóma sem fallið hafa í nauðgunarmálum á síðustu áratugum. Ég vona að skýringarnar liggi ekki í svona viðhorfum." Þessi ummæli tel ég að hafi verið ómakleg enda Guðrúnu fullkunnugt um hið gagnstæða. Þá eru þau til þess fallin að kasta rýrð á störf lögreglu. Þetta sýnir hins vegar að mínu mati í hversu miklar ógöngur umræða um málaflokkinn er komin," segir í svari Valtýs.

Sakfellingum fjölgar

Valtýr sendir Ögmundi einnig töflu þar sem fram kemur að fjöldi niðurfelldra mála hjá embætti ríkissaksóknara árið 2006 og 2007 hafi verið um 57% en en voru komin niður í rúm 44% árin 2008 og 2009. Þrátt fyrir það fækkar sýknudómum í héraði sömuleiðis á sama tímabili. Valtýr bendir á að þetta sýni að fleiri mál rata til dómstóla og að sakfellingum fjölgar.

Traust mikilvægt

„Það er mikilvægt að almenningur beri traust til ákæruvaldsins í landinu. Það verður m. a. gert með því að birta upplýsingar og gefa skýringar á vinnubrögðum ákæruvaldsins. Opin stjórnsýsla, þar sem allar réttar upplýsingar liggja fyrir, stuðlar að bættu réttarkerfi og hvetur jafnframt viðkomandi til að gera betur. Miðlun allra slíkra upplýsinga getur ekki, að mati ríkissaksóknara, verið til þess fallin að rýra traust þolenda á réttarvörslukerfinu heldur þvert á móti svo að svarað sé beint spurningu ráðuneytisins að þessu leyti. Skiptir þá ekki öllu máli hvort sú umræða fari fram í fjölmiðlum eða annars staðar," segir Valtýr.



Valtýr vill þverfaglega nefnd


Ríkissaksóknari telur jafnframt nauðsynlegt að dómsmála- og mannréttindaráðherra skipi þverfaglega nefnd þeirra sem að þessum málum koma, það er lögreglu, neyðarmóttöku, ríkissaksóknara, lögmanna og fulltrúa Stígamóta, undir formennsku prófessors til að fara yfir tölfræði, vinnuferla og vinnubrögð auk þess að athuga hvort lagabreytinga sé þörf á þessu sviði. Þá þurfi að athuga hvernig efla megi með markvissum hætti forvarnarstarf í málaflokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×