Íslenski boltinn

Logi Ólafsson: Það eina jákvæða var að vinna leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Ólafsson, þjálfari KR.
Logi Ólafsson, þjálfari KR. Mynd/Daníel
KR-ingar tryggðu sér sigur í Lengjubikar karla í dag með 2-1 sigri á Breiðabliki í úrslitaleik en þjálfarinn var þó ekki sáttur við frammistöðu sinna manna í leiknum.

„Það er gott að vinna mót og það er kannski það eina sem var jákvætt við þennan leik hjá okkur það var að vinna leikinn og þar með mótið," sagði Logi Ólafsson, þjálfari KR, í viðtali á Sporttv eftir leikinn.

„Ég held að við höfum ekki sýnt góðan fótbolta í dag, Breiðabliki var betri aðilinn allan leikinn og meira að segja þegar þeir voru búnir að missa mann af velli. Það eina sem ég get því séð jákvætt hjá okkur var að vinna leikinn og mótið en annað var ekki gott," sagði Logi.

„Það er mjög gott að þetta sé að verða meira alvöru mót. Við fórum inn í þetta mót með það í huga að fá sem flesta alvöru leiki út úr því og það tókst okkur. Ég tel þetta vera mjög góðan undirbúning fyrir það sem koma skal. Ég er sjálfsögðu ánægður með að vinna mótið," sagði Logi.

KR-ingar hafa spilað vel á vormótunum og tekið báða titlana í boði. Þeir eru því sigurstranglegir á Íslandsmótinu í sumar.

„Við höfum gefið það út að við viljum vera í toppbaráttunni og viljum komast að minnsta kosti í Evrópukeppni. Við göngum ekki til þessa móts með einhvern hroka um að við séum langbestir. Það eru góð lið í deildinni og þar á meðal er Breiðablik. FH er með mjög gott lið, Valur er með gott lið, Fram er með gott lið og Keflavík er með gott lið. Ég held að það væri mjög hrokafull yfirlýsing að segja það að það væri ekki erfitt að spila á móti þessum liðum," sagði Logi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×