Íslenski boltinn

Alfreð: Get ekki lýst því hvað þetta er ljúfur sigur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Alfreð Finnbogason átti enn og aftur mjög fínan leik fyrir Blika í kvöld. Var sífellt að búa eitthvað til, alltaf hættulegur með boltann og skoraði eitt mark.

"Það var smá taugaspenna í hópnum í upphafi leiks enda að koma á erfiðasta útivöll landsins að margra mati. Þetta var líka stærsti leikur ársins. Við erum líka óreyndir að margra mati en við unnum okkur vel inn í leikinn og kláruðum þetta," sagði Alfreð og bætti við að sigurinn væri einkar ljúfur.

"Ég get varla lýst því hvað þetta er ljúfur sigur. Þetta var enn eitt prófið sem við vorum settir í og náðum að standast það. Þetta gildir samt ekki neitt ef við klárum ekki næstu leiki."

Alfreð er væntanlega kominn í leikbann eftir að hafa fengið gult spjald í kvöld. Hann nær þó að spila um helgina en verður fjarri góðu gamni í lokaleiknum gegn Stjörnunni.

"Það verður ekki auðvelt að klára þessa leiki sem eru eftir. Við verðum virkilega að vinna fyrir þeim sigrum. Við erum ekki einu sinni farnir að hugsa um lokaleikinn. Nú erum við bara að hugsa um Selfossleikinn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×