Innlent

Liður í hagræðingu

ÖssurSkarphéðinsson
ÖssurSkarphéðinsson

Framlögum á fjárlögum sem ætluð eru til varnarmála hefur nú verið deilt milli utanríkisráðuneytisins og undirstofnana þeirra ráðuneyta sem munu sameinast í nýju innanríkisráðuneyti.

Í fjárlögum ársins 2011, sem samþykkt voru á Alþingi í gær, renna 862,7 milljónir króna til varnarmála, um 100 milljónum krónum minna en í ár.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði við atkvæðagreiðslu á Alþingi í gær að þær breytingar sem þar voru gerðar þegar framlög voru færð frá Varnarmálastofnun til annarra stofnana væru í rökréttu framhaldi af samþykkt Alþingis í júní. Þá samþykkti Alþingi að leggja niður Varnarmálastofnun.

„Hér er verið að ljúka þeim breytingum, og þetta er liður í því sparnaðar- og hagræðingarátaki sem þegar hefur fært skattborgunum 500 milljónir án þess að með nokkru móti sé framkvæmd alþjóðlegra skuldbindinga Íslands veikt,“ sagði Össur.

Varnarmálastofnun tók til starfa 1. júní 2008. Hún fékk 533,8 milljónir af fjárlögum þess árs. Árið 2009 fékk hún 1.227 milljónir á fjárlögum. Á þessum árum var stofnunin rekin fyrir mun minna fé, samtals um 400 milljónum undir fjárheimildum.

Ríkisstjórnin ákvað að leggja stofnunina niður í desember í fyrra og var það lögfest í júní síðastliðnum. Árið 2010 fékk Varnarmálastofnun 963 milljónir króna á fjárlögum og fær 862,7 á næsta ári. Nánast allur sá sparnaður og hagræði sem utanríkisráðherra vísaði til náðist áður en ákveðið var að leggja stofnunina niður.

brjann@frettabladid.is

BjarniBenediktsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×