Íslenski boltinn

Alfreð: Frábært að kveðja með marki

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Framherjinn Alfreð Finnbogason kvaddi Blika í kvöld. Hann er í banni í lokaumferðinni og verður væntanlega seldur frá félaginu áður en langt um líður.

Hann náði að skora undir lok leiksins og kveðja sitt lið á viðeigandi hátt.

"Það var mjög gaman að kveðja með marki. Ég var orðinn óþreyjufullur að ná inn marki í dag og frábært að kveðja tímabilið og stuðningsmennina með marki," sagði Alfreð.

"Allir leikir gegn liðunum í neðri hlutanum eru mjög erfiðir. Þau koma hingað til þess að verja stigið. Við vissum að þetta yrði þolinmæðisverk og það tæki tíma að brjóta þá niður. Við sýndum enn og aftur mikinn styrk, vorum þolinmóðir, héldum haus og uppskárum mark og síðan fleiri mörk.

"Það var ekkert panikk hjá mönnum og við pössuðum líka vel upp á að gefa ekki færi á okkur í vörninni. Við áttum skilið að taka þrjú stig," sagði Alfreð sem segir Blikana klára í að fara alla leið.

"Taflan lýgur aldrei og við erum í frábærri stöðu til þess að vinna okkar fyrsta Íslandsmeistaratitil. Lokaleikurinn verður erfiður en ég hef fulla trú á því að við klárum dæmið," sagði Alfreð sem ætlar að syngja með stuðningsmönnum Blika í leiknum gegn Stjörnunni í lokaumferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×