Innlent

Ómar saknar ekki hins gamla

Ómar Ragnarsson er með fyrstu og þekktustu farsímaeigendunum hér og var NMT-farsímahlunkur einkennismerki hans um nokkurra ára skeið.
Ómar Ragnarsson er með fyrstu og þekktustu farsímaeigendunum hér og var NMT-farsímahlunkur einkennismerki hans um nokkurra ára skeið.
„Mér líst mjög vel á þetta enda komnir litlir og öflugir farsímar sem draga langt," segir fjölmiðlamaðurinn Ómar Ragnarsson og bætir við að hann sakni ekkert sérstaklega NMT-farsímakerfisins, það nýja sé betra. Síminn slekkur endanlega á NMT-kerfinu 1. september næstkomandi og tekur langdræga 3G-netið þá við.

Staðið hefur til að leggja NMT-kerfið niður síðastliðin þrjú ár en því ítrekað verið slegið á frest. Síminn hefur verið að leggja niður NMT-stöðvar með skipulegum hætti upp á síðkastið samhliða uppbyggingu 3G-netsins. Frekari frestur verður ekki gefinn.

Margrét Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir unnið að því að hafa samband bæði símleiðis og bréfleiðis við jeppafólk sem notar NMT-kerfið og sjómenn sem ekki hafa fært sig yfir á nýtt kerfi. „Fyrir suma þeirra, einkum smábáta sem veiða á svæðum sem GSM-kerfið dekkar, dugar að vera með GSM-síma. Hinir hafa smátt og smátt verið að skipta út búnaðinum. Það gengur vel og viðtökur sjómanna eru mjög góðar," segir hún en með nýju kerfi geta sjómenn nýtt nettengingar eins og þeir væru í landi.- jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×