Fótbolti

England ósannfærandi í 3-1 sigri á Mexíkó

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ledley King og Peter Crouch skoruðu fyrstu tvö mörk Englands í kvöld.
Ledley King og Peter Crouch skoruðu fyrstu tvö mörk Englands í kvöld. Nordic Photos / Getty Images

England vann í kvöld 3-1 sigur á Mexíkó í vináttulandsleik á Wembley-leikvanginum í kvöld. Þrátt fyrir mörkin þrjú þótti frammistaða Englendinga í leiknum allt annað en sannfærandi.

Ledley King skoraði í sínum fyrsta landsleik í þrjú ár er hann kom Englandi yfir snemma í leiknum. Peter Crouch kom Englendingum í 2-0 skömmu síðar með nokkuð skrautlegu marki.

Þetta var þó 21. mark Crouch í aðeins 38 landsleikjum en hann náði að fylgja eftir skoti Wayne Rooney sem Oscar Perez, markvörður Mexíkó, varði í slána.

Carlos Salcido var nálægt því að minnka muninn fyrir Mexíkó er hann skaut í stöng en Guillermo Franco skoraði svo eina mark gestanna undir lok fyrri hálfleiks. Hann skoraði eftir að Leighton Baines hafði mistekist að hreinsa boltann frá marklínu eftir hornspyrnu.

En aðeins tveimur mínútum eftir að síðari hálfleikur hófst náði Glen Johnson að koma Englandi aftur í tveggja marka forystu með frábæru skoti af um 20 metra færi.

Englendingar mæta næst Japönum í vináttulandsleik í Austurríki á sunnudag en það verður síðasti leikur Englands áður en HM í Suður-Afríku hefst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×