Innlent

Djákninn kominn til Dóminíska lýðveldisins

Hluti hópsins á Haítí í morgun.
Hluti hópsins á Haítí í morgun.
Halldór Elías Guðmundsson, djákni, og samnemendur hans eru komnir frá Haítí til Dóminíska lýðveldisins. Halldór var eini Íslendingurinn sem staddur var í landinu þegar jarðskjálftinn reið yfir í síðustu viku, nánar til tekið í borginni Jacmel.

Sjálfur lýsti Halldór fyrstu nóttinni eftir jarðskjálftann þannig að hann hafi legið á jörðinni við litla flugbraut í Jacmel. Þar lá hann ásamt hópi guðfræðinema frá Ohio án teppa með ferðatöskur sem kodda.

Halldór Elías.
Halldór var staddur á Haítí í námsferð sem skipulögð var af hjálparsamtökum sem lútherskar kirkjur í Bandaríkjunum styðja. Hópurinn sem er alls 13 manns, varð innlyksa í Jacmel eftir jarðskjálftann. Í gær fóru þau á litlum bátum meðfram ströndinni í átt að landamærum Haítí og Dóminíska lýðveldisins og í morgun komust þau yfir landamærin, að fram kemur í tilkynningu frá Biskupsstofu. Þaðan tók svo við löng rútuferð til höfuðborgarinnar, þaðan sem þau vonast til að geta flogið til baka til Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir

Guðs mildi að þau voru ekki inni á hótelinu

Halldór Elías Guðmundsson var á gangi ásamt hópi skólafélaga um götur Jacmel á Haítí þegar jarðskjálftinn reið yfir. Hann slapp ómeiddur en hluti hótelsins hrundi, þar á meðal herbergi Halldórs, að sögn Jennýjar Brynjarsdóttur, eiginkonu hans.

„Þar sem einu sinni var fínt hótel…“

„Hann lét strax vita. Áður en við vissum af skjálftanum hringdi hann í konuna sína í Bandaríkjunum,“ sagði Alfa Ragnarsdóttir, móðir Halldórs Elíasar Guðmundssonar, sem var á Haítí þegar stóri skjálftinn reið yfir.

Djákninn á Haítí: Svaf úti með ferðatösku sem kodda

„Það er skrítið að upplifa von í augum íbúa í aðstæðum sem virðast vonlausar,“ skrifar djákninn Halldór Elías Guðmundsson sem er staddur á Haítí, þar sem hann hefur verið síðan jarðskjálftinn reið yfir á miðvikudaginn. Hann skrifaði stutta hugvekju á heimasíðuna tru.is og lýsir þar hrikalegu ástandi á Haítí.

Íslendingur í Haítí

Utanríkisráðuneytinu er kunnugt um einn Íslending í Haítí. Hann er óhultur og gat látið vita af sér skömmu eftir stóra jarðskjálftann í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×