Innlent

Djákninn á Haítí: Svaf úti með ferðatösku sem kodda

Halldór Elías Guðmundsson er staddur á Haítí. Hann lýsir reynslu og hrikalegu ástandi í landinu eftir jarðskjálftann.
Halldór Elías Guðmundsson er staddur á Haítí. Hann lýsir reynslu og hrikalegu ástandi í landinu eftir jarðskjálftann.

„Það er skrítið að upplifa von í augum íbúa í aðstæðum sem virðast vonlausar," skrifar djákninn Halldór Elías Guðmundsson sem er staddur á Haítí, þar sem hann hefur verið síðan jarðskjálftinn reið yfir á miðvikudaginn. Hann skrifaði stutta hugvekju á heimasíðuna tru.is og lýsir þar hrikalegu ástandi á Haítí.

Nú er Halldór staddur í Jacmel. Hann lýsir fyrstu nóttinni eftir jarðskjálftann þannig að hann hafi legið á jörðinni við litla flugbraut í Jacmel. Þar lá hann ásamt hópi guðfræðinema frá Ohio án teppa með ferðatöskur sem kodda.

„Og við hlustuðum á þúsundir íbúa Haiti sem höfðu misst allt, syngja lofsöngva, biðja, gráta og aðstoða hvort annað burtséð frá litarhafti, stétt eða stöðu," skrifar Halldór og bætir við að nemarnir hafi notið ótrúlegrar vináttu, gestrisni og samfélags með fólki í erfiðustu aðstæðum sem hægt er að hugsa sér.

„Það er skrítið að yfirgefa vini í aðstæðum sem þessum en við sem ferðumst hér saman erum meðvituð um að vera okkar hér núna er byrði á góðum vinum sem eiga mikið verk fyrir höndum," segir Halldór sem er ekki viss hvenær eða hvernig hann kemst í burtu enda vegurinn frá Jacmel ófær.

Halldór hvetur svo almenning til þess að styrkja hjálparstarf á Haítí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×