Innlent

Dagur: Slæm staða OR varpar skugga á ársreikninginn

Dagur B. Eggertsson oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn segir að slæm staða Orkuveitunnar og aðgerðarleysi í fjármálum fyrirtækisins varpi skugga á annars vel viðundandi stöðu borgarsjóðs en ársreikningur Reykjavíkurborgar var lagður fram í borgarstjórn í dag.

„Svo langt er gengið að fjármálaskrifstofa birtir skýrslu með þungvægum ábendingum sem ekki er hægt að skilja öðru vísi en harða gagnrýni á afneitun og aðgerðarleysi borgarstjóra og meirihlutans í málefnum Orkuveitu Reykjavíkur," segir Dagur og bendir á að fjármálastjóri sé þó næsti undirmaður borgarstjóra.

„Skuldir fyrirtækisins hafa fjórfaldast á rúmum þremur árum og eru 241 milljarður króna. Í fréttatilkynningu frá skrifstofu borgara segir að ársreikningurinn feli í sér "mikil og góð tíðindi fyrir Reykvíkinga". Umfjöllun um Orkuveitu Reykjavíkur ber hins vegar þvert á móti með sér að staðan sem ársreikningur lýsir felur í sér "vond tíðindi": miklar gjaldskrárhækkanir og samdrátt í framkvæmdum," segir Dagur ennfremur og bætir við að hvort tveggja skrifist á fjármálastjórn og aðgerðarleysi.

„Borgarstjóri hefur hins vegar neitað að horfast í augu við stöðuna eða haft kjark til að greina borgarbúum frá því hvernig eigi að bregðast við. Áhættumat vegna Orkuveitunnar hefur þó legið á borði borgarsstjóra frá 27. janúar sl.," segir Dagur meðal annars.

Í skýrslu fjármálaskrifstofu borgarinnar er að sögn Dags kallað eftir áætlun um gjaldskrárhækkanir næstu árin hjá Orkuveitunni, aðgangi að lánalínum í erlendri mynt og frestun fjárfestinga fyrirtækisins, svo dæmi séu tekin. „Þá er bent á að endurfjármögnunarþörf OR fari vaxtandi 2010-2013 en á tímabilinu þurfi að afla alls 78 milljarða króna miðað við óbreyttar fyrirliggjandi áætlanir. Minnihlutinn í borgarstjórn hefur lengi varað við fjárhagsstöðu Orkuveitunnar og kallað eftir áhættumati vegna stöðu Orkuveitunnar og tillögum borgarstjóra og meirihlutans til að ráða úr þeim vanda sem birst hefur í árshlutauppgjörum fyrirtækisins sl. ár," segir Dagur og segir að engu sé líkara en að það eigi viljandi að draga fram yfir komandi borgarstjórnarkosningar að kynna borgarbúum stöðuna einsog hún er.

„Skýrsla fjármálaskrifstofu Reykjavíkborgar hefur nú gert þær fyrirtætlanir að engu."

Skýrsluna má í heild sinni sjá hér.






Tengdar fréttir

Borgarsjóður hallalaus og veruleg umskipti í rekstri

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009 er lagður fram á borgarstjórnarfundi í dag en samkvæmt honum var borgarsjóður rekinn hallalaus og veruleg umskipti urðu til hins betra í rekstri samstæðunnar. Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri segir þetta mikil og góð tíðindi fyrir Reykvíkinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×