Íslenski boltinn

Ólafur um Hermann, Theodór Elmar og Gunnar Heiðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Theodór Elmar er aftur kominn í A-landslið karla.
Theodór Elmar er aftur kominn í A-landslið karla. Nordic Photos / AFP
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari valdi í dag meðal annarra þá Hermann Hreiðarsson, Theodór Elmar Bjarnason og Gunnar Heiðar Þorvaldsson í landsliðið á nýjan leik.

Á blaðamannafundi KSÍ í dag útskýrði hann af hverju hann kallaði á þá nú.

Hermann Hreiðarsson sleit hásin í mars síðastliðnum og hefur verið samningslaus síðan í sumar en þá rann samningur hans við Portsmouth út.

„Hermann er byrjaður að æfa á fullu og gerði það fyrir þó nokkrum tíma með Portsmouth. Hann hefur reyndar ekki spilað leik eftir því sem ég best veit. Ég held að hann skrifi undir nýjan samning við Portsmouth í dag, ef ekki í dag þá á morgun."

„Þar auðvitað sérstakt að hann sé valinn í landsliðshóp þar sem hann hefur ekki spilað lengi. En ég tel það gríðarlegan styrk fyrir landsliðið að hafa Hermann með, hvort sem hann verður í byrjunarliðinu, á varamannabekknum eða upp í stúku. Þess vegna var hann valinn nú," sagði Ólafur.

Theodór Elmar hefur verið að spila sem fastamaður í liði IFK Gautaborgar í Svíþjóð en dró sig úr landsliðinu á síðasta ári.

„Menn muna að hann rauk í burtu á sínum tíma í minni óþökk. Alveg frá fyrsta degi síðan það gerðist hefur honum staðið til boða að tala við mig og klára þau mál," sagði Ólafur.

„Það er oft þannig að ungir strákar eru femnir við að hringja í þjálfarann en við áttum gott samtal fyrir hálfum mánuði er hann hringdi í mig. Hann iðraðist þess sem hann gerði og lofaði að það muni ekki koma fyrir aftur. Hann er því valinn aftur nú."

Og um Gunnar Heiðar, sem nú leikur með Fredrikstad í norsku B-deildinni, hafði hann þetta að segja:

„Gunnar Heiðar hefur verið í bulli með sinn feril í eitt eða tvö ár. Hann hefur verið á milli liða og ekki átt upp á pallborðið þar sem hann hefur verið að spila. En hann er nú kominn með fast land og hefur verið að spila með liði sínu í toppbaráttunni í 1. deildinni í Norgi."

„Ég hef alltaf haft mikla trú á Gunnari en því miður hefur hann lent í því sem hann hefur lent í. En ég fagna því að hann er byrjaður að spila reglulega aftur. Það er gott fyrir landsliðið."

Þess ber að geta að Ólafur missti sjö leikmenn úr síðasta landsliðshópi sínum í U-21 landsliðið sem mætir Skotum tvívegis á næstu dögum. Vegna þessa og meiðsla annarra leikmanna þurfti Ólafur að gera níu breytingar á leikmannahópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×