Innlent

Stoppuðu handboltakappa sem var að missa af leik

Lögreglan stöðvaði för nítján ára pilts síðdegis í Reykjavík í gær en hann ók greitt og sveigði ótæpilega á milli annara bifreiða að sögn lögreglu. „Ungi maðurinn sagðist vera að fara að keppa í handbolta og því orðið að gefa í en í bílnum voru líka nokkrir félagar hans á svipuðum aldri sem vafalaust áttu líka að taka þátt í leiknum," að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni.

Piltunum var gerð grein fyrir þaí að svona akstursmáti væri stórhættulegur og virtust þeir meðtaka skilaboðin.

„Til öryggis var þeim fylgt á leikinn og farið með ökumanninum alla leið inn í búningsklefa. Þar var rætt við þjálfara piltsins og honum bent á að leikmenn hans þyrftu að haga sér vel, jafnt innan vallar sem utan. Þjálfarinn tók þessum ábendingum vel og ætlaði að ræða þetta frekar við strákana," segir einnig í tilkynninguni en að lokum er tekið fram að ekki sé vitað hvernig leikurinn fór.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×