Erlent

Óttast áhrif HM auglýsinga á börn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Coca Cola er mikilvægur styrktaraðili fyrir HM. Mynd/ AFP.
Coca Cola er mikilvægur styrktaraðili fyrir HM. Mynd/ AFP.
Baráttumenn fyrir bættum lífsstíl eru yfir sig hneykslaðir á þeim auglýsingasamningum sem Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, hefur gert fyrir HM í ár. FIFA hefur meðal annars samið við Coca Cola, McDonald's og Budweiser um auglýsingar. Gagnrýnisraddir segja hins vegar eðlilegt að horft sé til heilbrigðissjónarmiða þegar slíkir samningar eru gerðir og vitað er að milljarðar manna í meira en 200 ríkjum muni horfa á.

„Það leikur enginn vafi á því að knattspyrna getur verið mikilvægt afl í því að vinna gegn offitu því að þarna er um að ræða ákveðna hreyfingu sem nánast allir geta tekið þátt í," segir Teresa Nightingale forstjóri alþjóðasamtakanna The World Cancer Research Fund.

„Ég er viss um að mörg börn muni verða fyrir áhrifum frá mönnum eins og Rooney og Messi og reyni að herma eftir þeim í görðunum heima hjá sér og í almenningsgörðum eins og foreldrar þeirra og afar og ömmur hermdu eftir Maradona og Pelé," er haft eftir Nightingale á BBC. Hún segir að það sé einmitt þess vegna sem það sé svo nöturlegt að ákveðið hafi verið að semja við fyrirtæki sem ala á óhollustu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×