Innlent

Síðbúin þrettándagleði í Eyjum

Frá gleðinni í Vestmanneyjum í kvöld. Mynd/Gísli Óskarsson
Frá gleðinni í Vestmanneyjum í kvöld. Mynd/Gísli Óskarsson

Hin hefðbundna þrettándagleði í Vestmannaeyjum hefur breyst í þriggja daga þrettándahátíð sem haldin er dagana 7. til 10 janúar. Nokkru eftir hinn eiginlega þrettánda.

Í kvöld var síðbúin þrettándagleði haldin þar sem jólin voru kvödd á íþróttavellinum við Löngulág við söng, álfadans og tröllahopp.

Gleðin var opnuð með flugeldasýningu og göngu jólasveinanna ofan af fjallinu Há. Þaðan lá leiðin í gegnum bæinn að íþróttavellinum við Löngulág. Þar var kveikt í bálkesti á vellinum miðjum. Þegar bálið brann dönsuðu álfar um völlinn og tröll og grýlur hoppuðu að áhorfendum og seildust eftir þeim með tilheyrandi óhljóðum. Þetta sjónarspil kórónaði flugeldgnýr með blossum og leiftrum.

Þetta er í fyrsta skipti sem þriggja daga þrettándahátíð er haldin í Vestmannaeyjum. Hátíðin hófst síðastliðið fimmtudagskvöld með Eyjakvöldi á Kaffi Kró þar sem tónlistarmenn tóku lagið. Þá tók við hin sjálf þrettándagleðin.

Á morgun laugardag verða verslanir og veitingastaðir opnar með tilheyrandi tröllaútsölum og tröllaréttum. Þá verður sýning á verkum í eigu Listasafns Vestmannaeyja í Svölukoti.Tröllagleði verður í íþróttamiðstöðinni og opið hús verður hjá slökkviliðinu og Náttúrugripasafni Vestmannaeyja.

Hátíðinni lýkur síðan á sunnudag með messum í Landakirkju og Stafkirkjunni á Skansinum og með upplestri sagna í Safnahúsi Vestmannaeyja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×