Innlent

UVG kalla Össur hervaldssleikju og segja Björn Val vanhæfan

Guðrún Axfjörð Elínardóttir kjörin nýr formaður UVG á landsfundi félagsins sem fram fór í Reykjavík um helgina.
Guðrún Axfjörð Elínardóttir kjörin nýr formaður UVG á landsfundi félagsins sem fram fór í Reykjavík um helgina.

Ákvörðun utanríkisráðráðherra að undirrita samning um samstarf við Kanada í varnarmálum er pungspark í Vinstri græna og brýtur gróflega í bága við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að mati Ungra vinstri grænna. Félagið telur að Björn Valur Gíslason, þingmaður flokksins, hafi verið vanhæfur til að taka þátt í starfi starfshóps um endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ályktunum sem samþykktar voru á landsfundi UVG um helgina. Á fundinum var Guðrún Axfjörð Elínardóttir kjörin nýr formaður félagsins.

Vanhæfur sökum hagsmunatengsla

Landsfundurinn lýsir yfir vonbrigðum með að þingflokkur Vinstri grænna hafi tilnefnt Björn Val Gíslason, þingmann flokksins, í starfshóp um endurskoðun á fiskveiðistjórnun. „Björn Valur er starfsmaður stórútgerðarinnar Brims og því vanhæfur sökum hagsmunatengsla. Landsfundur lýsir því yfir að samningaleiðin sé algjörlega óásættanleg niðurstaða og gangi í berhögg við stefnu VG."

Vilja senda „hervaldssleikjur“ úr landi

Í ályktun sem ber heitið „Össur norður og niður" fordæma UVG með öllu samning um samstarf í varnarmálum sem Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, gerði nýverið.

„Samningarnir felast í því að Kanadaher fái að stunda æfingar á Íslandi og þjálfa þar hermenn sína til frekari drápa. Ákvörðun utanríkisráðherra er sem pungspark í samstarfsflokk hans og brýtur gróflega í bága við samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar og Vinstri grænna," segir í ályktun.

Þar segir ennfremur: „Ung vinstri græn gera það að tillögu sinni að hervaldssleikjur verði fluttar til stórvelda handan Atlantshafsins þar sem þær geta fullnægt stríðsdraumórum sínum. Fjölmargir einstaklingar sem búið hafa í stríðshrjáðum löndum en stjórnvöld hafa kosið að senda úr landi hafa unnið sér meiri rétt til veru hérlendis og tala fyrir friði."

Ítreka kröfu um aðskilnað ríkis og kirkju

Landsfundur UVG ítrekar þá kröfu félagsins að ríki og kirkja skulu aðskilin og krefst þess að vinna við það hefjist tafarlaust. „Raunverulegt trúfrelsi næst ekki á Íslandi meðan ríkið rekur eitt tiltekið trúfélag," segir í ályktun.



Vilja lagalega umgjörð fyrir hústökur


Félagið krefst þess að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar endurskoði stefnu hins opinbera til hústöku og hvetur Alþingi til að mynda skýra lagalega umgjörð til að heimila hústökur.

„Fjöldi bygginga stendur auður og tilbúnar til niðurrifs á meðan margir borgarar gætu notið húsaskjóls þar eða nýtt undir félagslega starfsemi. Ung vinstri græn telja að nýtingaréttur eigi að vera eignarrétti æðri og sjá ekkert að því að þá sem vanti þak yfir höfuð sitt dvelji í yfirgefnum húsum, svo fremi sem þar séu ekki unnin eignaspjöll."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×