Innlent

Vill flugvöllinn áfram í Reykjavík

Miðstöð innanlandsflugs á áfram að vera á Reykjavíkurflugvelli um langa framtíð. Þetta er skoðun nýs samgönguráðherra, Ögmundar Jónassonar, sem kvaðst á Alþingi í gær vonast til að fá niðurstöðu um smíði samgöngumiðstöðvar á fundi með borgarstjóranum í Reykjavík á fimmtudag.

Í fyrirspurnartíma á Alþingi síðdegis í gær vildi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Einar K. Guðfinnsson, fá afstöðu nýs samgönguráðherra til Reykjavíkurflugvallar og fékk þetta svar frá Ögmundi:

"Afstaða mín er skýr. Hún er sú að miðstöð innanlandsflugs eigi að vera á Reykjavíkurflugvelli."

Þingmaðurinn spurði einnig um hvað liði áformum um smíði samgöngumiðstöðvar og fékk það svar að boltinn væri nú hjá borgaryfirvöldum og kvaðst ráðherra vonast til að fá botn í málið á fundi með borgarstjóra á fimmtudag.

Ögmundur kvaðst telja að það væri yfirgnæfandi meirihlutavilji í landinu að halda flugvellinum í Reykjavík. Það væri til hagsbóta fyrir alla sem notuðu flugsamgöngur að jafnaði.

"Og ég vona að flugvöllurinn eigi langa framtíð í Reykjavík," sagði ráðherrann og kvaðst taka undir það að aðstaða sú sem farþegum væri búin væri ekki viðunandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×