Innlent

Misskilningur um kvennafrí hjá HÍ

Erla Hlynsdóttir skrifar
Fjöldi starfskvenna við HÍ mætti í miðbæinn í gær
Fjöldi starfskvenna við HÍ mætti í miðbæinn í gær Mynd: Valli
Starfskonur við Háskóla Íslands sem lögðu niður störf í gær klukkan 14.25 þurfa ekki að vinna afgang vinnudagsins upp síðar. Ekki verður heldur dregið af launum þeirra sem stimpluðu sig út á þessum tíma. Misskilningur varð til þess að hluti starfskvenna HÍ stóð í trú um hið gagnstæða.

Nokkur umræða var í gær á póstlista starfsmanna HÍ um að þær starfskonur sem ætluðu að taka þátt í kvennafrídeginn þyrftu að bæta tapaðan vinnutíma upp síðar og var fólk mjög undrandi á þessu fyrirkomulagi.

Vefritið Smugan birti í morgun frétt þar sem vitnað var í Elvu Björk Einarsdóttur, verkefnisstjóra framhaldsnáms við hjúkrunarfræðideild skólans, sem segist hafa fengið þau skilaboð frá sínum yfirmanni að þær konur sem myndu stimpla sig út um hálf þrjú þyrftu síðar að vinna aukalega í hálfa aðra klukkustund.

Vísir hafði samband við deildarstjóra hjúkrunarfræðideildar, Sunnu Guðrúnu Sigurðardóttur, sem sagðist hafa skilið starfsfólk starfsmannasviðs á þann veg fyrir helgina að þessi háttur yrði hafður á ef konur færu fyrrr úr vinnunni á kvennafrídaginn.

Elísabet Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri á starfsmannasviði, segir í samtali við Vísi að þarna hafi verið um helberan misskilning að ræða. „Þetta stendur ekki til og stóð aldrei til," segir hún.

Elísabet segist ekki átta sig á því hvernig misskilningurinn kom til en ítrekar að ekki verði dregið af launum þeirra kvenna sem stimpluðu sig út klukkan 14.25 og þær ekki krafðar um aukið vinnuframlag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×