Hrognavinnsla úr loðnu hófst á fimmtudag hjá Ísfélagi Vestmannaeyja þegar Álsey, skip Ísfélagsins, landaði um 1.000 tonnum af loðnu, og var vinnslan í fullum gangi í gær þegar ljósmyndari Fréttablaðsins leit við.
Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri Ísfélagsins, segir hrognin enn ekki nægilega þroskuð til sölu á Japansmarkað, en trúlega séu ekki nema einn eða tveir dagar í að þau verði tilbúin. Hrognin sem unnin verði þangað til nægum þroska verði náð fari í sölu annars staðar.
Búast má við miklum önnum í loðnuvinnslum næstu vikurnar, hamli bræla ekki veiðum. „Það verður nóg að gera og mikil verðmætasköpun, en það veltur mikið á því að menn verði heppnir,“ segir Eyþór. Um 100 starfa við vinnsluna.- bj