Erlent

Bensínþurrð í Grikklandi

Bensínstöðvar á Grikklandi eru óðum að tæmast af bensíni og olíu vegna verkfalls tollvarða, sem hefur nú verið framlengt fram á miðvikudag þegar helstu verkalýðsfélög landsins efna til allsherjarverkfalls.

Eldsneytisskorturinn er eitt fyrsta merkið um alvarlegar afleiðingar vaxandi andófs gegn sparnaðaraðgerðum stjórnvalda, sem þurfa að bæta hratt úr bágbornu efnahagsástandi til þess að standast kröfur Evrópusambandsins.

Fjármálaráðherrar Evrópusambandsins krefjast þess að ríkisstjórn Grikklands sýni fram á efnahagsbata fyrir 16. mars, að öðrum kosti verði þeim gert að skera enn frekar niður á fjárlögum.

Grísk stjórnvöld hafa fyrir sitt leyti lofað því að minnka fjárlagahallann, þannig að hann fari úr 12,7 prósentum af vergri þjóðarframleiðslu niður í 8,7 prósent strax á þessu ári.

Embættismenn í fjármálaráðuneyti Grikklands segja Evrópusambandið leggja hart að þeim að fella niður „fjórtánda mánuðinn" svokallaða, en launum opinberra starfsmanna er skipt í fjórtán greiðslur yfir árið þannig að tvær komi sem aukalaun í orlofi.

Launafólk lítur hins vegar á brottnám fjórtándu greiðslunnar sem stríðsyfirlýsingu.

„Aðgerðirnar verða að vera félagslega réttlátar. En það höfum við ekki séð til þessa," segir Yiannis Papagopoulos, leiðtogi gríska alþýðusambandsins GSEE.

Verkfall tollvarða hefur stöðvað að nokkru bæði innflutning og útflutning, en áþreifanlegustu áhrif þess hafa verið á eldsneytisbirgðirnar í landinu.

Víða þurfti starfsfólk bensínstöðva að grípa til þess að skammta viðskiptavinum sínum. Við sumar bensínstöðvar í Aþenu þurfti umferðarlögreglan að taka að sér umferðarstjórn vegna þess að langar biðraðir höfðu myndast.

Í gær efndu leigubílstjórar til sólarhrings verkfalls og efndu til mótmælaaðgerða í Aþenu, þeyttu flautur og stöðvuðu umferð. Þeir eru meðal annars ósáttir við að eldsneytisskattur hafi hækkað og þeim jafnframt gert að gefa út kvittanir til viðskiptavina sinna.

„Þessar aðgerðir skila ekki neinu, það eina sem út úr þeim kemur er að við missum vinnuna," sagði einn leigubílstjóranna, Anastasis Dimianidis.

gudsteinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×