Íslenski boltinn

FIFA leiðréttir Dómaranefnd KSÍ - víti Halldórs Orra var ólöglegt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Halldór Orri Björnsson.
Halldór Orri Björnsson.
Dómaranefnd KSÍ hafði ekki rétt fyrir sér þegar hún gaf frá sér yfirlýsingu um að vítið, sem Halldór Orri Björnsson tók fyrir Stjörnuna á móti FH í 20. umferð Pepsi-deildar karla, hafi verið löglegt. Dómaranefnd FIFA var send „klippa" af atvikinu og hefur hún sent KSÍ sitt álit.

Hér á eftir fylgir íslensk þýðing á svarinu sem barst frá Dómaranefnd FIFA en það er hægt að sjá vítið í "Brot af því Besta" inn á Vísi eða með að smella hér.

„Þetta er ekki löglegt! Leikmaðurinn klárar atrennu sína - og þykist síðan ætla að skjóta í þeim tilgangi að blekkja markvörðinn. Það er ekki löglegt - honum er heimilt að taka „gabbhreyfingar" í atrennu sinni, en alls ekki þegar hann hefur lokið atrennunni.

Því bar að endurtaka vítaspyrnuna (af því að hann skoraði) - og áminna leikmanninn fyrir óíþróttamannslega framkomu".

Þessari leiðréttingu er hér með komið á framfæri enda skylt að hafa það sem sannara reynist. Nefndin biðst velvirðingar á hvatvísi sinni," segir í frétt á heimasíðu KSÍ.

Þóroddur Hjaltalín Jr. dæmdi vítið gilt og það gæti skipt máli i baráttu Halldórs Orra um markakóngstitilinn í Pepsi-deildinni. Þetta var þrettánda mark hans á tímabilinu en hann hefur aðeins skorað einu marki minna en Alfreð Finnbogason sem verður í leikbanni í lokaumferðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×